141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[18:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er það þannig að okkur liggur nokkuð á, Alþingi, að hafa gleggri mynd af þeim atburðum sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vísar til. Það er óþolandi fyrir okkur að fylgjast með því hvernig það hefur smám saman verið að koma í ljós að mat manna á þeim vanda sem við er að etja vegna gjaldeyrishaftanna hefur verið í þá áttina að vandamálið sé erfiðara og stærra en talið var. Hluti af því að gera sér grein fyrir þessu svo hægt sé að taka skynsamlega á málum er að fram fari einmitt rannsókn í anda þess sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur til.

Rétt eins og ég heyri ekki betur en að ágæt pólitísk samstaða sé um að farið verði í rannsókn á einkavæðingu bankanna árið 2002 þá sé líka samstaða um að fara eigi í þessa rannsókn, og þá er spurningin í hvaða röð. Þá hlýtur það að vera alveg ljóst, virðulegi forseti, vegna vandamála sem uppi eru núna og verða hv. þingmönnum ljósari að að sjálfsögðu hljótum við, og sé hið eðlilega verklag, að fara fyrst í þá rannsókn sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir leggur til og síðan í framhaldinu að skoða hina áratugargömlu sögu.

Það er alveg hárrétt að við hljótum að velta fyrir okkur hvort staðið hafi verið rétt að þeim skiptum sem um er að ræða, hvort það hefði mátt gera með einhverjum öðrum hætti þannig að hagkvæmara reyndist fyrir íslenskt þjóðarbú. Kannski var þetta allt saman gert eins og best var kostur á, en kannski urðu stjórnvöldum þarna á einhver mistök og það er sjálfsagt fyrir okkur að leggja mat á það. (Forseti hringir.) En það er nauðsynlegt fyrir okkur að velta fyrir okkur þessari sögu allri (Forseti hringir.) til að koma í veg fyrir það að við endurtökum einhver mistök og þá er sjálfsagt (Forseti hringir.) að rannsaka það fram og til baka.