141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fullgilding viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu.

296. mál
[18:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu leita ég heimildar Alþingis til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd sérstaka bókun sem skeytt var við samning á sviði refsiréttar um spillingu. Það var gert 15. maí 2003 í Strassborg. Samningurinn sjálfur var hins vegar gerður löngu fyrr, þ.e. 1999. Með honum var stefnt að því að samræma ýmsar efnis- og formreglur aðildarríkjanna sem tengjast tilteknum spillingarbrotum í því skyni að gera saksókn vegna þeirra brota mögulega og eftir atvikum auðvelda hana. Aðildarríki Evrópuráðsins gripu síðar til þess ráðs að auka við sjálfan spillingarsamninginn og rýmka gildissvið hans. Þess vegna var þessi viðbótarbókun lögð fram. Hún felur það einkum í sér að spilling á sviði gerðar- og kviðdóma verður gerð refsiverð. Þannig felst í henni að aðildarríkjunum er gert að tryggja að gerðarmenn og kviðdómarar, jafnt innlendir sem erlendir, falli undir ákvæði refsilaga að því er varðar mútubrot, þ.e. mútugreiðslur og mútuþágur. Líkt og á við um eftirlit með spillingarsamningnum sjálfum er það GRECO, ríkjahópur gegn spillingu, sem er falið að fylgjast með framkvæmd á viðbótarbókuninni.

Samhliða þessari þingsályktunartillögu hefur innanríkisráðherra lagt fram frumvarp til breytingar á almennum hegningarlögum sem er nauðsynlegt til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem viðbótarbókunin felur í sér.

Virðulegi forseti. Spilling er eins og við vitum samfélagslegt mein sem getur grafið undan öryggi og stöðugleika. Það er mikilvægt að útrýma henni úr okkar samfélagi og öllum möguleikum á því að henni takist að festa rætur. Á síðustu árum hefur góðu heilli verið unnið að því hér á landi að búa til lagaumhverfi sem stefnir að því.

Ísland hefur tekið þátt í þeirri vinnu sem tengist alþjóðlegri samvinnu um þessi mál og ýmsum alþjóðasamningum sem hafa verið gerðir. Þar nægir að nefna Evrópuráðssamninginn sem um ræðir og síðan ekki síst spillingarsamning Sameinuðu þjóðanna sem Ísland gerðist aðili að í byrjun síðasta árs. Með því að fullgilda viðbótarbókunina, sem ég mæli fyrir að verði gert, höldum við áfram á þessari vegferð og færumst skrefum nær því markmiði.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.