141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að það nálgast prófkjör, forvöl og flokksvöl á ýmsum vígstöðvum þegar þingmenn koma hingað upp og halda ræður eins og hv. þm. Helgi Hjörvar og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gerðu áðan. (Gripið fram í.) Það var greinilegt að þau orð voru mælt til einhverra annarra en þeirra sem sitja í þessum sal.

Ég ætla aftur á móti að beina orðum mínum að þeim sem hér sitja og fjalla um málefni sem fellur undir störf þingsins og snertir sama viðfangsefni og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vék að áðan í sambandi við skattafrumvörp, gjaldafrumvörp ríkisstjórnarinnar sem við höfum svo sem beðið eftir frá því í september. Það er búið að gefa ýmsar yfirlýsingar út og suður um væntanlegar skattbreytingar sem eiga að fylgja fjárlögunum en ekkert bólar á frumvörpunum. Ég veit ekki hvort nokkur í þessum sal er þess umkominn að svara hvar þau mál standa en ég verð þó að vekja athygli á að það eru næstum því tveir mánuðir síðan fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Þegar það var lagt fram hefur ríkisstjórnin væntanlega haft einhver áform um það hvað ætti að vera í þessum skattafrumvörpum og það er því með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki enn hafa getað afgreitt þessi frumvörp til þingsins þegar ljóst er að tekjuforsendur fjárlaga byggja á þeim skattbreytingum sem þar voru boðaðar.

Ef ríkisstjórnin ætlar hins vegar að falla frá einhverjum af þeim áformum sem boðuð hafa verið er líka mikilvægt að fá það fram og nauðsynlegt að það fái þá umræðu í þinginu. Ég vona að eitthvað sé að marka það sem fram hefur komið hjá einstökum ráðherrum um að ekki eigi að fara jafnbratt í ýmsar (Forseti hringir.) skattahækkanir og gefið var til kynna hér í haust. Það er mikilvægt að við fáum þessar upplýsingar á borðið en heyrum ekki bara tilviljanakennt af þeim (Forseti hringir.) í fjölmiðlum.