141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þau eru ýmis málin sem hér eru til umfjöllunar í dag og við í þinginu erum að kljást við. Sum eru þess eðlis að við munum vart leysa þau einn, tveir og þrír. Má þar nefna frið í heiminum, þróunarhjálp eða þá staðreynd, sem kom fram á ráðstefnu um matvæli í gær, að í mat í kvöld verða 250 þúsund fleiri manns en í gær, og er gríðarleg vinna að framleiða mat. Auðvitað getum við lagt okkar skerf af mörkum með atvinnuuppbyggingu og því vil ég skora á formann atvinnuveganefndar og þingið að taka upp mál sem liggja hér inni, til að mynda frá okkur framsóknarmönnum, um sókn í atvinnumálum sem snýr að þessum málaflokkum.

Það eru líka ýmis önnur smærri mál sem við getum fengist við í þinginu og klárað svo að sómi sé að. Í gær ræddum við um fjarskiptamál og nauðsyn þess að hringvegur sé opinn á landinu öllu í opinberri eigu. Lýstu allir þingmenn því yfir að það væri skynsamlegasta niðurstaðan og var ráðherra hvattur til að fara í þá veru. Ég held að þetta væri prýðilegt verkefni fyrir þingið að klára, eitthvað viðráðanlegt sem við réðum við, um atvinnuuppbyggingu og jafnræði þegnanna á Íslandi.

Annað sem athygli mín var vakin á í morgun er að fyrir einu ári var gefin út ný reglugerð um byggingarmál og gildistökunni frestað til næstu áramóta. Gildistaka þessarar nýju byggingarreglugerðar mun að sögn kunnugra hækka byggingarkostnað í landinu milli 10 og 20%, byggingarvísitöluna með tilheyrandi hækkunum á lánum og verðtryggingu, lánum heimila og fyrirtækja. Ég velti því upp í þessum sal hvort það sé það nauðsynlegasta að fara út í á þessum vetri að hækka byggingarkostnaðinn svona gífurlega mikið, hvort ekki sé skynsamlegt að fresta þessari gildistöku enn um sinn og fara aðeins yfir málið.