141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mér datt í hug, þegar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fór að ræða fjárlagatillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna, hvort þingflokkur Vinstri grænna treystir sér til að bera ábyrgð á ungliðum Vinstri grænna sem vilja afnema eignarréttinn og heimila hústökufólki að taka hús sem það ekki á. Það væri áþekkt því sem hann sagði áðan ef þeir bæru ábyrgð á því og vildu gera þær hugmyndir ungra Vinstri grænna að sínum.

Að öllu gamni slepptu held ég að það hljóti að vera fagnaðarefni að loksins á þessu kjörtímabili, þegar tæpir 6 mánuðir eru eftir af ríkisstjórnarveru norrænu velferðarstjórnarinnar, detti þeim ágætu stjórnarþingmönnum sem hér sitja í hug að ræða eldri borgara og lífskjör þeirra. Það er tímabært, virðulegur forseti. Frá því að þessi norræna velferðarstjórn tók við 2009 hefur hún markvisst skert lífeyrisréttindi eldri borgara frá A til Ö. Hún hefur komið með tekjutengingar sem hamla því að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Hún setur á auðlegðarskatt sem kemur einna verst niður á fullorðnu fólki sem býr í skuldlausu eigin húsi. Sá skattur sem vinstri stjórnin taldi að hún væri að leggja á hátekjufólkið í landinu kemur verst við eldri borgara sem búa í eigin húsi.

Ég fagna því hins vegar ef norræn velferðarstjórn er að vakna til vitundar um að hugsa þarf um eldri borgara í þessu samfélagi og rétta þeirra kjör. Það er betur að það hefði komið fram fyrr því að þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir. En kannski verða breytingar á milli 1. og 2. umr. og 2. og 3. umr. Og það yrði þá til bóta.