141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Okkur Íslendingum eru miklar gjafir gefnar. Á land eru dregin um tíu kíló af fiski á hverjum sólarhring fyrir hvern íbúa landsins. Það er auðvitað undirstaða efnahagslegrar (Gripið fram í: Það segir sig sjálft.) velferðar í landinu. Sem betur fer er afkoman í sjávarútvegi betri en hún hefur verið að minnsta kosti áratugum saman þó að hann greiði myndarlegt framlag í ríkissjóð nú í ár. (Gripið fram í: Kjósa um það.)

Okkur á Alþingi hefur ekki tekist að vinna á þeim ágöllum sem fylgdu kvótakerfinu í að verða 30 ár. Ég tel að meginástæðan fyrir því hafi verið sú að menn voru alltaf að reyna að leysa tvö vandamál í senn. Annars vegar eðlilega kröfu um hlutdeild í arðinum af veiðunum og hins vegar ágallana á fiskveiðistjórnaraðferðinni sjálfri. Þessi tvö stóru álitaefni hafa menn aldrei haft þrek til að leysa bæði í senn.

Ég fagna því þess vegna að við höfum leyst úr arðsvandanum með því að láta sjávarútveginn greiða eðlilegt framlag í ríkissjóð. Það mun auðvelda okkur að fást við fiskveiðistjórnarhlutann vegna þess að núna eru það orðnir ríkir hagsmunir alls almennings, og jafnvel enn ríkari en fyrr, að í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sé staðinn vörður um arðsemina í kerfinu til þess að greinin geti staðið undir nýjum fjárfestingum í atvinnulífi, háum launum eins og hún gerir og myndarlegu framlagi í almannasjóði.

Ég held að það sé næsta verkefni stjórnmálanna að ljúka við skynsamlegar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem tryggja arðsemi og áframhaldandi uppbyggingu í íslenskum sjávarútvegi og að hann skili, já, þessum hvað (Forseti hringir.) eru það, 16% af framlegðinni í greininni í ríkissjóð. Ég held að menn séu ekki of góðir til þess.