141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um hvort rannsaka eigi einkavæðingu bankanna frá 2002. Hér liggur fyrir breytingartillaga frá mér um að við förum samhliða í rannsókn á seinni einkavæðingunni sem átti sér stað 2010 undir stjórn þáverandi fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

Einnig vil ég árétta að það er hinn mesti misskilningur sem hér hefur komið fram að fyrri einkavæðingin hafi valdið bankahruninu. Ég minni á að Íslandsbanki var einkabanki og féll fyrstur. Því er ekki hægt að segja að einkavæðingin hafi valdið hinu svokallaða bankahruni.

Virðulegi forseti. Ég vona að breytingartillaga mín fái hljómgrunn og að hægt verði að fara í hliðstæða rannsókn á seinni einkavæðingu bankanna.