141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka 1. flutningsmanni tillögunnar fyrir frumkvæði hans í málinu. Ég held að þetta sé löngu tímabær rannsókn. Vegna orða þingflokksformanns og formanns Sjálfstæðisflokksins vil ég segja að ég var þeirrar skoðunar að rétt væri að fara líka í rannsókn á því sem gerðist í bönkunum eftir hrun. Ég hefði stutt tillögu um það en við umfjöllun meiri hlutans í þeirri nefnd sem með málið fór hefur það af einhverjum ástæðum ekki orðið ofan á heldur er lagt til að að þessu sinni sé aðeins þessi áfangi tekinn. En ég vil árétta að það er óbreytt og óhögguð skoðun mín að ekkert sé því að vanbúnaði að rannsaka það sem síðar fór fram varðandi bankana. Ef um það eru óskir er best að það sé bara gert og andrúmsloftið hreinsað því að þar treysti ég að ekkert sé sem ekki þolir dagsins ljós.