141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki mikið um þessa atkvæðagreiðslu að segja, það sem snýr að þessari fimmtán ára gömlu rannsókn sem nokkuð hefur verið farið í. En ég held að það sé algjörlega fráleitt og gríðarleg skinhelgi hjá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans — og ég trúi því nú ekki fyrr en ég tek á því — að samþykkja það en ekki breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.

Hv. þm. Skúli Helgason nefndi það sem röksemd að lítil leiðsögn hefði verið frá þinginu. Hver var leiðsögnin frá þinginu þegar einkavæðingin hin síðari var, hver var hún? (Gripið fram í: Eftir að koma.) Hún á eftir að koma. Ef menn vilja rannsókn, sem ég fagna, hvet ég menn til að beita sér fyrir því í hv. stjórnarmeirihluta að spurningum verði svarað um einkavæðingu hina síðari og líka um málefni Byrs og SpKef. Ég sé fram á (Forseti hringir.) gríðarlegan stuðning frá hv. stjórnarliðum við að ég fái svör við spurningum sem ég hef verið að spyrja (Forseti hringir.) í um tvö ár. Það verður gaman að fá að vinna með þeim að því að fá það upplýst.