141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að við afgreiðum þessa tillögu hér í dag, það er löngu orðið tímabært. Mig langar líka að taka undir tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar um það að við gætum þess að fara ekki með rannsóknarnefndir af þessu tagi niður í flokkspólitísk hjólför eða hjólför þess meiri hluta sem ræður hverju sinni. Það er mjög vondur bragur á því og verður að galdraofsóknum áður en árið er úti ef við höldum áfram á þeirri braut.

Þess vegna langar mig að minna á að Hreyfingin hefur lagt fram tillögu um að fram fari rannsókn á samskiptum Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, viðskiptaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins í aðdraganda hrunsins. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis tók aldrei nema lítillega á því máli.

Við munum aldrei ganga sátt frá borði hvað hrunið varðar fyrr en það er upplýst hverjir stóðu að hvaða ákvörðunum og með hvaða hætti þau samskipti voru. Mig langar því að hvetja þingheim og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að taka þessa tillögu til vandlegrar athugunar og afgreiðslu áður en árið er úti.