141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vildi nota þetta seinna tækifæri til að taka fram að ég styð breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur og tek undir með þeim sem hafa vakið athygli á mikilvægi þess að sá þáttur yrði jafnframt rannsakaður.

Ég vil að það komi líka fram undir þessari atkvæðagreiðslu að ég tel mjög mikilvægt að forsætisnefnd marki þessari rannsókn einhvern ramma, m.a. í ljósi þess sem ég tók fram hér áðan. Menn hljóta að vera svolítið hugsi yfir því að eftir að sett var af stað rannsókn á lífeyrissjóðakerfinu og Íbúðalánasjóði lenti ríkissjóður með tæplega 500 milljóna kostnað (Gripið fram í: … sparisjóðunum …) — á sparisjóðunum og Íbúðalánasjóði ætlaði ég að segja. Það er rætt um að fara að rannsaka lífeyrissjóðina líka. (Gripið fram í: Já.) (Gripið fram í.)

Forsætisnefnd hlýtur að þurfa að taka það til skoðunar þegar þessari rannsókn verður hrint af stað, verði hún samþykkt, hvernig hægt sé (Forseti hringir.) að lágmarka kostnað samhliða því að ná fram þeim markmiðum sem þingið leitast eftir. Það er brýnt verkefni (Forseti hringir.) fyrir forsætisnefnd, virðulegi forseti.