141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég segi já við þessari tillögu því að ég held að ef ráðist verði í þessa vinnu muni hún gagnast okkur núna. Eitt af þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir er losun á gjaldeyrishöftum. Þessi vinna getur hjálpað til í þeirri vinnu.

Ég tel það skynsamlegt og þó að ég geti vel borið virðingu fyrir og skilið sjónarmið varðandi orðalag á þessum hlutum, hvort um sé að ræða einkavæðingu eða ekki, þá er tilgangurinn með flutningi tillögunnar augljós, þ.e. að fara í gegnum þetta, glöggva sig á þessu ferli og fá niðurstöðu í það þannig að það nýtist okkur síðan í vinnunni.

Virðulegi forseti. Ef hægt væri að fá þessa tillögu samþykkta legg ég til að nefndinni yrði falið að ráðast fyrst í þetta verkefni, klára það og fara síðan í hina áratugagömlu einkavæðingu bankanna vegna þess að okkur liggur á þessari niðurstöðu en líka vegna þess að það er ótækt fyrir stjórnarliða að sitja undir ásökunum um að eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað. Það er hagur allra að slík rannsókn fari fram og leiði í ljós hvað gerðist nákvæmlega (Forseti hringir.) þannig að við höfum einhvers konar leiðarvísi og hjálpargagn í vinnunni hér fram undan.