141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[16:55]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um heildstæða löggjöf um stjórnsýsluleg málefni innflytjenda. Ekki er um að ræða efnisreglur um réttindi innflytjenda þó að hvatt sé til innleiðingar tilskipana um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi.

Með frumvarpinu er Fjölmenningarsetri á Ísafirði veitt eðlileg lagastoð. Setrið hefur unnið gott starf í um áratug. Í greinargerðinni er minnt á mikilvægi góðs samstarfs um málefni innflytjenda í nærumhverfi þeirra, en það er í raun annað mál því að hér er fyrst og fremst verið að setja löggjöf um stjórnsýsluna.

Staðsetning Fjölmenningarsetursins á Ísafirði hefur aðeins verið gagnrýnd. Sú gagnrýni er á ákveðnum misskilningi byggð því að hlutverk þess er fyrst og fremst ráðgjöf í gegnum síma, net og bæklinga og slík starfsemi á vel heima úti á landi. Bein þjónusta við innflytjendur á heima hjá félagsþjónustu sveitarfélaga í samstarfi við ríkið.

Málið var afgreitt í fullri sátt út úr velferðarnefnd svo að ég treysti því að góður stuðningur sé við frumvarpið og hvet til þess að það sé samþykkt með þeirri litlu breytingartillögu sem því fylgir.