141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:27]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson. Þessi tillaga var lögð fram á 139. löggjafarþingi og 140. löggjafarþingi og flyt ég hana nú óbreytta í þriðja sinn og vonast til að málið fái brautargengi í þinginu vegna þess að aldrei er brýnna en nú að við skilgreinum auðlindir okkar.

Mikil umræða hefur farið fram um auðlindir þjóðarinnar meðfram umræðu um að við þurfum að gera breytingar á stjórnarskránni þannig að nú er réttur tími til að við komum saman og skilgreinum auðlindir okkar og hvernig beri að nýta þær.

Þessi tillaga er raunverulega frekar einföld þó að hún sé efnismikil í útskýringum og því langar mig að lesa efnisgrein tillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að fá færustu sérfræðinga á sviði auðlindaréttar til að semja frumvarp sem skilgreinir með tæmandi hætti hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.“

Hér er lagt til að þetta fari í þann farveg að kallaðir verði saman okkar færustu auðlindaréttarsérfræðingar og þeim falið að smíða frumvarp sem kemur til með að mynda lagaumgjörð um auðlindirnar sem eru núna óvarðar. Ég er ekki síst að leggja þetta fram vegna þess að aðildarumsókn liggur inni hjá Evrópusambandinu. Evrópusambandið gerir ekki kröfu um að ríki skilgreini auðlindir sínar og hefur einungis samkvæmt samningum aðgang að þeim auðlindum sem eru ekki varðar með lögum hjá viðkomandi ríki. Við höfum fiskveiðiauðlindina okkar varða með lögum. Það má segja að hún sé nánast eina auðlindin sem er varin gagnvart ágangi Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir að við teljum að sjávarútvegsauðlindin okkar sé varin með lögum ásælist Evrópusambandið hana samt, eins og við vitum, og er sjávarútvegskafli umræðnanna mjög þungur í skauti, bæði fyrir Evrópusambandið og okkur sem þjóð.

Segjum sem svo að Íslendingar væru gengnir í Evrópusambandið og við stæðum hér með allar okkar auðlindir óvarðar samkvæmt lögum, þá fengju Evrópuríkin sjálfkrafa nýtingar- og ráðstöfunarrétt á öllu hér á landi. Þess vegna er mjög mikilvægt að farið verði af stað með það ekki síðar en strax að setja ramma utan um þessar auðlindir.

Ég ætla ekki að lesa alla þingsályktunartillöguna. Ég skipti henni í nokkra kafla, virðulegi forseti, og ætla bara að lesa kaflaheitin. Þau eru Auðlindaréttur sem fræðigrein, Almennt um náttúruauðlindir, Hugtakið auðlind, Eignarhald á auðlindum, Auðlindir án eiginlegs eignarréttar, Leiðir til auðlindastjórnar, Hagfræðileg álitaefni og Gjaldtaka náttúruauðlinda hér á landi. Þetta eru átta kaflar og þar flyt ég rök fyrir því máli mínu að þetta sé brýnt.

Oft og tíðum er auðlindahugtakið mjög takmarkað í ræðu og riti og þá er yfirleitt bara talað um sjávarútvegsauðlind og mannauð og eitthvað slíkt en í þessari þingsályktunartillögu er tafla sem var fyrst birt í auðlindaskýrslu árið 2000 og ber hún heitið Um jarðrænar auðlindir og framtíðarnýtingu þeirra. Þar kemur til dæmis fram að land til beitar er auðlind sem og land til nýbygginga, jarðorkulindir, jarðvegur, land til urðunar og móttöku úrgangs, námur, friðlýst land, land til skógræktar, land til útivistar, villt dýr, örverur, ómengað vatn, vatnsból, vatnsföll, útivist, efni á hafsbotni og neðan hans, hafið sem viðtaki úrgangs, andrúmsloftið sem viðtaki útblásturs, nytjastofnar, siglingaleiðir, sjávarföll, hreint loft, rafbylgjur til fjarskipta, vindorka, vistkerfi, erfðaefni og svo mætti lengi telja.

Þess vegna eru auðlindir okkar svo ofboðslega margar og víðfeðmar. Það er í því ljósi sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu, að auðlindum okkar verði búinn sá lagarammi að þær séu varðar með lögum, sér í lagi fyrir ágangi annarra þjóða. Í öðru lagi varðar hún aðgang almennings að auðlindunum ef við ætlum einhvern tímann að stofna hér auðlindasjóð þannig að rentan af auðlindunum renni til ríkisins. Í þriðja lagi er sú staðreynd að það eru alltaf að finnast nýjar auðlindir sem við höfðum áður ekki yfirsýn yfir og er því mikilvægt að í framhaldinu, þegar komin verður lagaumgjörð um auðlindirnar, verði hægt að bæta við nýjum auðlindum sem verða þá varðar samkvæmt lögum. Þar sem þetta mál er lagt fram í þriðja sinn í þinginu legg ég mikla áherslu á að það fái nú þinglega meðferð. Í þessu felst að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt eigi að færa frumvarpsvaldið til sérfræðinga okkar á sviði auðlindaréttar sem semji frumvarpið.

Virðulegi forseti. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég vísa þingsályktunartillögunni að lokinni umræðu hér til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og vona að hún fái þar góðar móttökur og að hægt verði að ljúka þessu máli fyrir þinglok í vor.