141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir afskaplega áhugaverða ræðu um mjög áhugavert efni.

Hér stendur að skilgreina eigi „með tæmandi hætti“. Ef menn hefðu rætt saman fyrir hundrað árum um auðlindir þá hefði nánast ekkert af því sem í dag telst auðlind flokkast undir auðlind þannig að auðlindir virðast koma og fara, aðallega koma. Jökulárnar voru til dæmis til bölvunar í hverri sveit hér áður fyrr og sjávarútvegurinn krafðist mannfórna á hverju einasta ári, 2008 var fyrsta árið án mannfórna. Það er varla hægt að tala um hann sem auðlind. Það er ekki fyrr en að mannvitið og mannauðurinn kemur og breytir einhverju náttúrufyrirbæri, eins og sjávarútvegi, í auðlind og það er eiginlega fyrst og fremst takmörkunin sem veldur verðmætasköpuninni. Takmörkun á því að aðrir komist í einhverja hagsmuni. Ef ekki hefði verið tekið upp sjávarútvegskerfi 1984 hefði fiskurinn klárast, það er trú mín og fleiri, og sjávarútvegurinn væri engin auðlind. Það er sem sagt fyrir atbeina ríkisins sem þetta varð auðlind, þ.e. með því að takmarka.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki of takmarkandi að tala um að skilgreina þetta „með tæmandi hætti“. Svo finnst mér vanta inn í þetta kolefnislosun, þ.e. markaði með kolefnislosun. Þegar menn fara að reyna að hamla gegn hitnun jarðar með því að láta borga fyrir að menga þá myndast um leið auðlind eins og vatnsorkan sem verður margfalt verðmætari á Íslandi þegar farið verður að skattleggja kolefnislosun um allan heim.