141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er mikil umræða um auðlindir og í nýrri stjórnarskrá er einmitt sérákvæði um auðlindir. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi tillaga til þingsályktunar verði samþykkt til að menn viti hvað þeir eru að tala um. Mjög margir tala um auðlindir og margir hafa ekki einu sinni gert sér grein fyrir hvað auðlind er, t.d. að auðlindin í sjávarútvegi er takmörkunin en ekki fiskurinn. Svipað er með tíðni rafsegulbylgna sem eru notaðar til að setja gögn yfir í síma og tölvur og annað slíkt. Ef ekki væri takmörkun mundi þetta lenda allt í einni kássu og ekki væri hægt að nota rafsegulbylgjurnar til að flytja gögn nema með takmörkun ríkisins. Þá er það líka auðlind hverjir fá aðgang að þessu kerfi og hvernig það er gert og það skiptir þá verulegu máli að rafsegulbylgjur eða aðgangur að þeim verði ekki leyfður nema til ákveðins fjölda ára. Það gilda því um það kerfi sömu reglur og um annað sem er í gildi.

Ég vildi gjarnan að hv. þingmaður svaraði því hvað gerist með svona takmarkanir því að þær eru nefnilega, merkilegt nokk, eignarréttur eða mynda verðmæti. Takmarkanir annarra en mín að íbúðinni minni eru til dæmis merki um eignarrétt minn. Takmarkanir hvort sem þær eru á fiskstofnum, íbúð, lóð eða hvaðeina búa því til eignarréttinn. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún hefði kynnt sér þetta, hún hefur greinilega kynnt sér mjög margt, og hversu langt það gengur inn í auðlindahugtakið hver hefur leyfi til að takmarka.