141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft gríðarlega mikilvægu máli. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmönnum, flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu, fyrir þetta mál. Því miður er hugtakið auðlind, sem er mikið notað hér í umræðunni, nokkuð illa skilgreint. Hvað er nákvæmlega átt við með auðlind, auðlindarentu o.s.frv.? Sérstaklega hefur borið á þessu hugtaki nýverið í umræðu um fiskveiðiauðlindina. Nú blandast engum manni hugur um að um er að ræða auðlind þegar horft er til fiskstofnanna á Íslandsmiðum. En hvað er auðlindarenta? Það hugtak er nátengt auðlindahugtakinu og þar er uppi ákveðinn vandi. Þegar við ræddum um stofn til auðlindagjalds var sú nálgun sem birtist í því frumvarpi sem hér var lagt fram og varð að lögum mjög á reiki, illa útfærð og illa skýrð og bar vott um, að mati fræðimanna á því sviði, grundvallarmisskilning á eðli hugtaksins auðlindarenta, því miður.

Virðulegi forseti. Fyrir örfáum dögum voru fréttir af því hversu miklu verðmætari þorskveiðarnar á Íslandi væru miðað við þorskveiðarnar í Noregi. Hvers vegna er munur þar á? Jú, að hluta til kann hann að vera vegna þess að fiskimiðin sjálf séu gjöfulli ef horft er á hverja sóknareiningu og ef menn gefa sér það að sóknareiningin hér sé sambærileg við sóknareiningu í Noregi megi rekja ákveðinn hluta til auðlindarinnar sjálfrar. Með öðrum orðum, ef beitt er sömu tækni og sömu aðferðum við nýtingu á auðlind og um er að ræða tvær auðlindir og ef mismunur er á rentunni án þess að það sé nokkur mismunur á því hvernig þær eru nýttar þá ber það merki um að auðlindarenta sé mismunandi. En það er mjög erfitt að greina þarna á milli.

Augljóst má vera að sú tækni sem verður til við nýtingu auðlindanna, vegna þess að einstaklingar og fyrirtæki þeirra fjárfesta í tækni, taka áhættu með þeim fjárfestingum til að lækka kostnaðinn við nýtinguna og auka framleiðnina, er ekki hluti af auðlindarentu. Það er renta sem skapast vegna ákvarðana þeirra einstaklinga sem nýta auðlindina. Þá er mjög hættulegt, virðulegi forseti, ef skilaboðin frá ríkisvaldinu eru þau að á grundvelli býsna óljóss eignarhalds, svokallaðrar þjóðareignar, kasti ríkið eignarhaldi á stóran hluta af þeim viðbótarafrakstri sem myndast vegna þeirra fjárfestinga sem einstaklingar og fyrirtæki þeirra leggja í til þess að auka hagkvæmni í nýtingu auðlindarinnar. Það er hættulegt vegna þess að það sendir röng skilaboð. Það sendir skilaboð til þeirra sem nýta auðlindirnar um að áhættutakan sem felst í því að kaupa nýjar vélar, prófa nýja tækni því að það er áhætta, verði í raun meiri vegna þess að ef vel gengur þá muni ríkið taka stóran skerf til sín en ef illa gengur, ef mat manna var rangt á þeirri tækni sem var lagt upp með að nota, þá sitja einstaklingarnir og fyrirtæki þeirra uppi með allan skaðann.

Virðulegi forseti. Fyrir okkur Íslendinga er þetta gríðarlega mikilvægt mál vegna þess að hagkerfi okkar byggir svo mikið á nýtingu auðlinda. Fiskveiðiauðlindin er sú stærsta, orkuauðlindin og síðan landið sjálft til nýtingar í landbúnaði, ræktunar og ég leyfi mér að fullyrða líka í ferðamennskunni. Allir þessir þættir hafa með auðlindanýtingu að gera og reyndar margir fleiri. Síðan skiptir auðvitað máli, og þá kem ég aftur að þessari tillögu, að átta sig á hvað auðlind er. Ég tala nú ekki um ef niðurstaðan er sú að allar auðlindir sem ekki eru nú þegar í einkaeigu eigi að verða eign ríkisins og fara í umsjón ríkisins. Þó að það sé fegrað með orðinu þjóðareign er eins gott að það sé næmur og djúpur skilningur á því hvað er átt við með auðlind. Ef það hugtak er togað og teygt fram og til baka þá færir ríkisvaldið sig lengra og lengra. Ég er þess fullviss, virðulegi forseti, að með því að fara þá leið sem núverandi ríkisstjórnarmeirihluti hefur því miður lagt upp með, að eðlilegt sé að ríkið kasti eign sinni á allar auðlindir, erum við að draga úr sköpunarmætti og þrótti í hagkerfinu.

Virðulegi forseti. Hver er hvatinn ef einstaklingarnir vita að ef þeir uppgötva nýjar auðlindir, finna upp tækni og leiðir til að nýta það sem áður var ekki nýtt, óþekktar auðlindir, og það gengur upp, slík fjárfesting skilar sér og það verða til verðmæti þá komi ríkisvaldið og segi: Þetta er eign ríkisins! — en ef illa gengur, ef mistekst, það gerist miklu oftar, þá sitja einstaklingar og fyrirtæki þeirra uppi með skaðann?

Ég fagna þessari tillögu þeirra hv. þingmanna Vigdísar Hauksdóttur, Sigurðar Inga Jóhannessonar og Gunnars Braga Sveinssonar vegna þess að þetta er mjög þarft mál. Það er mjög þarft mál að við köllum fram bæði umræðu og greiningu á þessu hugtaki. Það er eiginlega furðulegt að við höfum farið í gegnum alla umræðuna um fiskveiðistjórnarkerfið og auðlindarentuna af fiskveiðum án þess að hafa í raun og veru farið í gegnum þessa vinnu. Er það ekki dæmigert? Er það ekki dæmigert fyrir flumbruganginn og ofsann sem var í því máli öllu og lýsti sér best í því þegar hæstv. utanríkisráðherra lýsti tilraunum þáverandi sjávarútvegsráðherra til þess að leiða fram málið á þingi sem bílslysi? Mat allra þeirra sem veittu umsögn um það frumvarp sem varð að lögum um auðlindarentuna, allra þeirra sem gáfu umsögn og þekktu til þessa máls, höfðu að baki sérfræðimenntun eða sérfræðiþekkingu á málinu, var að grundvöllur alls málsins, sama hvort um var að ræða þau gögn sem voru lögð til grundvallar útreikningi á gjaldinu eða þau grundvallarhugtök sem voru notuð, væru röng, jafnvel merkingarlaus. Þannig var farið fram gagnvart aðalatvinnuvegi íslensku þjóðarinnar þegar mestu máli skipti að sú atvinnugrein hefði svigrúm til að nýta fjárfestingargetu sína, byggja sig upp og halda sínu í alþjóðlegri samkeppni og halda áfram að tryggja góð lífskjör á Íslandi. Að hluta til má rekja þá vitlausu lagasetningu til þess að menn höfðu ekki nægan skilning og skilgreiningu á hugtakinu auðlind og þá auðlindarentu.

Virðulegi forseti. Ég mun styðja þetta mál og vona að það gangi nokkuð hratt fyrir sig. Fram undan eru umræður um breytingar á stjórnarskrá, auðlindaákvæði í stjórnarskrá, og þá held ég að það skipti máli fyrir okkur, til þess að sú umræða verði bæði merkingarbær og vitræn, að búið verði að vinna einhverja svona vinnu sem gæti orðið hv. þingmönnum til nokkurs gagns við þá umræðu.