141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hreyfir hv. þm. Pétur H. Blöndal við grundvallarþætti þessa máls sem er takmörkunin en hún er auðvitað grundvallaratriði í auðlindanýtingu, þ.e. ef um er að ræða takmarkaðar auðlindir.

Ég er þeirrar skoðunar og það er svar mitt við spurningu hv. þingmanns: Þar sem um er að ræða nýtingarsögu á landi eða á hafi úti sé sú nýtingarsaga, og þar með þær fjárfestingar og sú áhætta sem einstaklingar og fyrirtæki þeirra hafa tekið við að búa til þessa auðlind, þ.e. gera hana verðmæta, lögð til grundvallar. Nýtingarrétturinn verði þá í höndum þeirra sem eiga slíka sögu. Forræðið yfir auðlindinni sjálfri, ef við tökum sem dæmi hvað varðar sjávarútveginn, ákvarðanir um heildarafla, stýringu veiða á grundvelli veiðarfæranotkunar og annars slíks, getur áfram verið hjá ríkinu sem hefur yfirráðarétt yfir auðlindinni en nýtingarrétturinn sé einstaklinganna.

Hins vegar getur verið um að ræða auðlindir þar sem nýtingarsagan er í raun og sanni ríkisins eins og varð niðurstaðan varðandi orkunýtingu á Íslandi. Það var reyndar ekkert sjálfgefið að ríkið mundi leika jafnstórt hlutverk og það hefur gert en þannig er sagan. Þar af leiðandi eru rök fyrir eignarhaldi ríkisins í þeim málaflokki á þeim auðlindum, rétt eins og olíuauðlindir Norðmanna eru í eigu ríkisins vegna þess að nýtingarsagan er þannig.

Hvað varðar auðlindir sem hafa verið ónýttar en ríkið þarf síðan að afmarka, ef ekki er nein nýtingarsaga til staðar er eðlilegt að ríkið grípi þar inn í. Ef þetta eru þekktar auðlindir meðal annars vegna uppgötvana sem hafa orðið fjarri Íslandsströndum og hafa ekkert með okkur Íslendinga að gera og það liggur fyrir að hægt sé að fénýta þær auðlindir með því að nota tækni sem til er. Ég tel að þegar um ræðir til dæmis þær bylgjur sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður nefndi, útvarpsbylgjur eða (Forseti hringir.) aðrar slíkar, sé eðlilegt að ríkið taki einhvers konar gjald.