141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takmarkanir til dæmis í landbúnaði byggja á því að hver og einn bóndi á sína jörð, leigir jörð, eða hvernig sem það nú er, þannig að öðrum er ekki heimiluð nýting á jörðinni. Sú takmörkun byggir ekki á því að bóndinn geti með vopnavaldi fælt aðra frá heldur að ríkisvaldið tryggi að ef einhver brýst inn á hans jörð til þess að slá gras eða planta einhverju niður til þess að uppskera sjálfur síðar sé það stöðvað. Hvers vegna gerir ríkið það? Með öðrum orðum takmarkar þetta, af því jarðnæðið er takmarkað. Vegna þess að almannahagsmunir eru að baki slíkri takmörkun. Vegna þess að auðlindirnar fá gildi og verðmæti ef við beitum eignarréttinum með þessum hætti. Við sköpum eignarréttinn.

Vandinn hefur auðvitað verið sá hvað varðar fiskveiðar á Íslandsmiðum að menn hafa verið í vandræðum með það hvernig ætti að skilgreina slíkan eignarrétt. Það er auðvelt á landi. Það er erfiðara hvað varðar sjósóknina. Aflahlutdeildarmarkskerfi var komið á til þess að búa til slíka skilgreiningu.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að rétt eins og ég tel að ríkisvaldið eigi ekki að heimta af bændum sérstaka auðlindarentu vegna notkunar þeirra á jarðnæði, og liggur þó fyrir að það má halda því fram að Ísland sé sameign íslensku þjóðarinnar ef menn vilja tala með hátíðlegum hætti, sé það eins með fiskveiðarnar á Íslandsmiðum. Það séu þeir sem hafi með fjárfestingum sínum og vinnu í gegnum árin og áratugina sem eigi að hafa sóknarréttinn rétt eins og bændurnir hafa nýtingarréttinn. Það að ríkisvaldið takmarki sé í sjálfu sér ekki grundvöllur fyrir auðlindarentutöku. (Forseti hringir.) Það er mín afstaða. Ég sé hver staðan er, hvað er búið að ákveða og hvernig málum hefur verið hagað en ég hef ekki verið sáttur við það. (Forseti hringir.)