141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að sú röksemdafærsla er þekkt í stjórnmálasögunni að það sé óeðlilegt og jafnvel siðferðislega rangt að einstaklingar geti nýtt eða njóti afraksturs af auðlindinni, þ.e. auðlindarentunni, þeir eigi að fá að njóta afrakstursins af því sem þeir sjálfir hafa lagt fram, það er það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti svo ágætlega í ræðu sinni hér áðan, mismunurinn á því sem kalla má með sanni auðlindarentuna og hins vegar það sem verður til vegna rentu sem verður til vegna fjárfestinga, tækniframfara og annars slíks.

Að baki þessum hugmyndum er svokallaður georgismi meðal annars sem grundvallaðist af þeirri hugsun á sínum tíma að akkúrat þetta væri rangt, að þeir sem ættu jarðir fengju jarðrentuna svokölluðu og líka rentuna sem myndaðist vegna þeirra eigin jarðabóta. Hugmyndin gekk út á það að þrátt fyrir eignarréttinn á jörðunum væri eðlilegt að með skattheimtu tæki ríkið til sín þessa svokölluðu auðlindarentu af jarðnæðinu en skildi eftir fyrir eigendur jarðanna, bændurna, þann hluta rentunnar sem varð til vegna þeirra eigin jarðabóta. Ég hefði áhuga á því að heyra frá hv. þingmanni afstöðu hans til þessarar hugsunar.