141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú ætla ég að vona að hv. þingmaður ætli ekki að fara að bakka með landnám Íslands (IllG: Nei, nei.) — það er svona ferli sem búið er að loka. Reyndar var fyrir nokkrum árum nýtt landnám þegar ríkið sló eign sinni á allt sem ekki var í einkaeigu sem var mjög stórkostleg þjóðnýting eða ríkisvæðing — ég vil hætta að tala um þjóðnýtingu, ég vil fara að tala um ríkisvæðingu. Það má segja að það hafi verið landnám hið síðara þegar ríkið neyddist til þess af mörgum ástæðum að slá eign sinni á allt land sem ekki var í einkaeign vegna þess að nýtt landnám var byrjað með ferðafélögum og öðrum slíkum sem plöntuðu bústöðum hingað og þangað og slógu á vissan hátt eign sinni á viðkomandi land. Ég minni á Þórsmörk og fleiri staði.

Í mínum huga er þessi eignarréttur mjög skýr og klár, eignarréttur ákveðins bónda á ákveðinni jörð, og hvað bóndinn má gera. Vandamálin snúast um það hversu langt upp eignarrétturinn nær (IllG: … og hversu langt niður …) — og hversu langt niður, já, ég var ekki búinn að kára setninguna, hversu langt upp og hversu langt niður. Þar er vissulega ágreiningur.

Þessi eignarréttur er mjög klár. Hann stafar ekki lengur af takmörkun sem ríkið þarf að setja til að koma í veg fyrir ósköp af einhverju tagi. Það gerðist í sjávarútveginum. Það mun gerast í rafsegulbylgjunum. Takmörkunin býr þar til verðmæti og segja má að sá sem takmarkar, þ.e. ríkið, eigi kannski að eiga einhvern hlut í því. En svo stöndum við eftir með þann vanda hve stór hluti af rentunni er til kominn vegna hagræðingar og mannauðs.