141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað.

118. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega myndarlegur hópur þingmanna sem lætur sig varða starfsskilyrði í atvinnulífinu og gerir sér grein fyrir því að skattar og skattlagning hafa áhrif á skilyrði til rekstrar.

Tillaga þessi lýtur hins vegar að skattaívilnunum og við þær hef ég sitthvað að athuga. Ég tel farsælast og hef talið það hingað til að skattbyrðinni sé dreift jafnt á alla en að skattar séu um leið lágir og raunhæfir, í það minnsta með tilliti til skattheimtu. Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem koma fram í greinargerð með tillögunni, nokkrum áhugaverðum punktum og vel umræðunnar virði, tel ég.

Það kemur fram strax í upphafi greinargerðarinnar að núverandi ríkisstjórn hafi beitt sér fyrir breytingum á skattkerfinu til að efla innlenda atvinnustarfsemi. Ég tel að þetta hljóti að vera einhver mistök. Það kemur líka fram í greinargerðinni að þetta er gömul tillaga til þingsályktunar, en það er auðvitað ekki rétt fullyrðing, þvert á móti. Þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir breytingum á skattkerfinu sem hafa haft allt önnur áhrif en þau að efla innlenda atvinnustarfsemi. Má þar auðvitað nefna skattahækkanir á einstakar atvinnugreinar og almennar skattahækkanir í atvinnulífinu.

Í öðru lagi geri ég athugasemdir við þetta hugtak, hugverkaiðnaður. Hér er vísað til hans sem eins helsta vaxtarsprota íslensks atvinnulífs og vissulega teljast þær greinar sem hér eru taldar upp svo sem leikjaiðnaður og hönnun til helstu vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi en um leið er auðvitað verið að viðurkenna hér að vaxtarsprotarnir eru fleiri. Ég vil benda á að þessi tillaga, eins og aðrar tillögur um skattaívilnanir, er til þess fallin að draga fram einstakar atvinnugreinar en skilja aðrar eftir.

Þá vil ég líka gera athugasemd við þau ummæli sem koma fram í greinargerð með tillögunni að aðrar útflutningsgreinar byggi ekki á hugviti starfsmanna heldur byggi beint eða óbeint á takmörkuðum auðlindum. Ég held að allir viðurkenni í dag að til dæmis sjávarútvegurinn byggir að verulegu leyti á hugviti og mér finnst ekki við hæfi að viðhafa slík ummæli í greinargerð með tillögunni.

Þá velti ég því fyrir mér því sem kemur fram í greinargerðinni um að þær sérstöku greinar sem tillagan lýtur að þurfi minna fjármagn til fjárfestingar í upphafi og launakostnaðurinn sé samkeppnishæfur. Það kemur líka fram að hugverkaiðnaðurinn sem svo er kallaður hafi vaxið um 36% á ári. Því segi ég: Þetta gerist allt þrátt fyrir að ekki hafa verið fyrir hendi nokkrar sérstakar skattaívilnanir. Því spyr ég: Er einhver sérstök þörf á þessu? Er sérstök þörf á að hrófla við því sem lítur út fyrir að vera í ágætu horfi í dag?

Ég fagna því að þingmenn geri sér grein fyrir mikilvægi skatta fyrir skilyrði í atvinnulífinu og ég vil síst af öllu draga þrótt úr þeim þingmönnum sem bera fram tillöguna hvað það varðar og hvet þá til að velta þessum málum áfram fyrir sér. En ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki að sameinast um að búa öllum hagfelld skilyrði í atvinnulífinu í stað þess að taka út einstakar atvinnugreinar eins og þessi tillaga virðist ganga út á og búa þannig til einhvers konar sigurvegara og skilja aðra eftir.