141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

breytingar á skattkerfi til að styrkja íslenskan hugverkaiðnað.

118. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Andersen fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Við erum ekki algerlega sammála um þetta mál en hins vegar er þroskandi og gott að taka umræðu um það. Ég óska eftir því að á vettvangi nefndarinnar verði sömuleiðis farið „grundigt“ yfir málið og það skoðað frá öllum hliðum, t.d. hvort menn telji að orðalag eða annað eigi að vera með öðrum hætti.

Markmiðið er hins vegar algerlega skýrt. Hér höfum við ákveðna vaxtargrein í íslensku atvinnulífi sem hingað til hefur vaxið mikið utan landsteinanna. Það er sá vöxtur sem við erum fyrst og fremst að horfa á í greinargerðinni. Vöxturinn hefur verið mjög mikill en hann hefur átt sér stað erlendis. Hann hefur verið hér á landi. Fyrst var það mjög svo sterkt gengi krónunnar sem háði vexti þessara fyrirtækja hér á landi og svo var það hrunið og kreppan sem fylgdi í kjölfarið.

Við sjáum hins vegar að með sértækum aðgerðum getum við hjálpað ákveðnum atvinnugreinum, t.d. bendi ég á þann skattafslátt sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir og lýtur að kvikmyndagerð. Það ætti enginn að efast um að það þurfti að leita í allar matarholur í kreppunni og ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að gæta jafnvægis á milli þess að skera niður og afla tekna. Þá þurfti að fara í allar matarholur og þess vegna höfum við þurft að breyta rekstrarumhverfi fyrirtækja og heimila í gegnum skattkerfið. Hins vegar höfum við gætt að því að hlífa þeim sem veikast standa eins og þrepaskiptur tekjuskattur er gott dæmi um.

En ég vil leggja áherslu á að ég tel það klóka leið til að nýta takmarkaða fjármuni sem við höfum úr að spila að reyna að veita þeim í þann farveg þar sem mestir möguleikar eru til að vaxa og skapa verðmæti sem geta runnið til baka aftur. Við getum ekki breytt skattkerfinu í heild fyrir alla en getum kannski hlúð sérstaklega að vaxtargreinunum með samþykkt þessarar tillögu.