141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

skýrsla McKinsey ráðgjafarfyrirtækisins um íslenska hagkerfið.

[10:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það sem mér finnst eftirtektarvert varðandi skýrsluna er að engin alvörugagnrýni hefur komið fram á hana. Það er eins og meira eða minna öllum helstu niðurstöðum skýrslunnar sé tekið sem sjálfsögðum staðreyndum. Það er mikið fagnaðarefni og vonandi verður það til þess að ríkisstjórnin staldrar aðeins við og hinkrar með áform sín um að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu sem samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er greinilega framúrskarandi á alla mælikvarða.

Varðandi framhald málsins er stóra spurningin þessi: Ætlar forsætisráðherra að haga framhaldinu með þeim hætti að það sé allt á forsendum ríkisstjórnarinnar? Augljóst er að ekki er að búast við niðurstöðu um jafnviðamikið verkefni á þeim örfáu mánuðum sem líða fram að kosningum. Stendur til að búa til breiðan samstarfsvettvang þar sem engu skiptir í raun og veru að einn eða tveir aðilar séu með meiri hlutann? Verður þetta áfram á forsendum stjórnarflokkanna þannig að þeir hafi tögl og hagldir í framgangi vinnunnar (Forseti hringir.) eða á að ganga að þeirri hugmynd sem McKinsey leggur fram um að hafa viðræðugrundvöllinn miklu breiðari?