141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fátt er um svör hjá hæstv. forsætisráðherra, svarað er á annan hátt en spurningarnar ganga út á. Ég spurði þeirrar einföldu spurningar hvort það væri traustvekjandi fyrir okkur að sækja um aðild að sambandi sem endurskoðendur sambandsins treysta sér ekki til þess að skrifa upp á reikningana hjá. Þess vegna tel ég að þessi umsókn sé að fara úr öskunni í eldinn, ef svo má segja.

Í öðru lagi er einkennilegt að hæstv. forsætisráðherra sem fer fyrir þessari umsókn sem ráðherra skuli í embætti sínu ekki vita hvað embættismannakvóti Íslendinga er stór við inngöngu í sambandið. Þegar ríki gengur í sambandið fær það úthlutað embættismannakvóta.

Virðulegi forseti. Ef hæstv. forsætisráðherra hefur ekki svar við þessum spurningum hér í dag verð ég að lýsa því yfir að ég kem til með að leggja fram skriflega fyrirspurn til forsætisráðherra.