141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

gjaldeyrishöft.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við verðum alltaf að gæta allrar varúðar þegar kemur að því að stjórnvöld fari að skipta sér af Seðlabankanum og þeim verkum sem þar eru unnin. En í stórum málum eins og uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna er auðvitað farið yfir þessi mál á þeim vettvangi sem ég áðan nefndi, ráðherranefnd um efnahagsmál, og meðal annars hefur verið farið yfir uppgjör bankanna og að það verði að fara mjög varlega í það. Ég tel að Seðlabankinn hafi farið mjög varlega í þessu efni og hafi öll tök á þessu máli vegna þess að það er hans að gefa út reglur hvað þetta varðar. Ég held að við höfum alveg full tök á þessu máli. Við ræðum þetta reglulega en ég er ekki tilbúin hér og nú að gefa út einhverja skipun til Seðlabankans. Ég er tilbúin að skoða málið og það sem þingmaðurinn hefur lagt hér fram (Forseti hringir.) á næsta fundi í ráðherranefnd um efnahagsmál eins og ég nefndi, bæði þessi mál sem hv. þingmaður nefndi.