141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

kjaramál aldraðra.

[11:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða á Akranesi, skrifaði ákaflega athyglisverðar greinar annars vegar í Skessuhorn og hins vegar í Morgunblaðið. Í þeim vekur hann athygli á því að gert er ráð fyrir því að fólk sem flytur inn á hjúkrunar- og dvalarheimili hafi til ráðstöfunar um það bil 65 þús. kr. Hafi það meiri tekjur fer það fé sem er umfram 65 þús. kr. til dvalarheimilisins en þá greiðir ríkið minna með viðkomandi vistmanni en ella. Einstaklingur sem er með 100 þús. kr. tekjur á mánuði þarf að greiða tæpar 35 þús. kr. en einstaklingur með 200 þús. kr. tekjur greiðir tæpar 135 þús. kr.

Upphæðin, 65 þús. kr., hefur ekki breyst frá 1. janúar 2009. Það veldur því að ráðstöfunartekjur þess fólks sem dvelur á dvalarheimilum hafa rýrnað að raungildi svo um munar. Á sama tíma hefur ýmislegt annað hækkað eins og við vitum, til dæmis hafa bætur almannatrygginga hækkað á þessu tímabili um tæp 12%.

Ég spyr hæstv. velferðarráðherra hvort hann hyggist ekki beita sér fyrir því að sú fjárhæð sem fólk sem dvelur á dvalarheimilum hefur til ráðstöfunar verði hækkuð að minnsta kosti sem nemur vísitölubótunum sem komið hafa fram á almannatryggingakerfinu þannig að upphæðin fari þá úr 65 þús. kr. upp í tæpar 73 þús. kr.