141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég ætla ekki að fara í efnislegar spurningar við þingmanninn heldur ætla ég í upphafi umræðunnar að varpa fram tæknilegri spurningu.

Nú liggur það fyrir að ákveðið var af meiri hluta fjárlaganefndar að vísa frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2012 ekki til Ríkisendurskoðunar til yfirlestrar og fór þar formaðurinn hv. þm. Björn Valur Gíslason fremstur í flokki. Ég spyr því: Hvar er málið statt? Fær ríkisendurskoðandi það til yfirlestrar eða á að afgreiða fjáraukalögin fyrir áramót án aðkomu embættisins?