141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það. Þarna talaði formaður fjárlaganefndar. Því hlýt ég að spyrja á ný: Úr því að rjúfa á þá áralöngu hefð að vísa fjáraukalögum til ríkisendurskoðanda til yfirlestrar eru þá einhverjir aðrir aðilar sem eiga að lesa fjáraukalögin yfir eða er þetta eingöngu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig málið er lagt fram? Verður ekkert faglegt mat eða yfirlestur fenginn annars staðar frá inn í þessa vinnu? Ég spyr jafnframt: Hvers vegna hefur ekki verið tekin ákvörðun um að vísa málinu til ríkisendurskoðanda vegna þess að nú hefur komið í ljós að ríkisendurskoðandi nýtur trausts forseta Alþingis og þingmanna flestra?