141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, fyrir að ætla sér að vinna að því að minnka þann mun. Hann hefur farið vaxandi, að minnsta kosti undanfarin tvö ár, úr 40 milljörðum upp í 47 milljarða. Þetta eru ekki smáar tölur. Þetta eru gífurlega stórar tölur. Nú er spurning mín: Sér hv. þingmaður, er hann svo forspár að hann sjái fyrir einhverjar veilur í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem kunni að falla til í ríkisreikningi?

Ég nefni Íbúðalánasjóð, ég nefni mörg önnur dæmi sem bent hefur verið á þar sem menn hafa ekki tekið á vanda sem fyrir liggur og er augljós. Spurning mín til hv. þingmanns er hvort hann hafi séð það og hvort þá sé ekki ráð að setja þetta núna inn í meðförum nefndarinnar og horfast í augu við skuldirnar og vandann.