141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru kannski fáir af þeim sem sitja í þessum sal og átt hafa sæti í fjárlaganefnd undanfarin ár sem ekki hafa þurft að horfast í augu við skuldirnar og vandann. Það verður nú ekki borið upp á þá sem hér sitja eða þann sem hér stendur, að menn hafi ekki þurft að gera það. Þess vegna hafa menn reynt að taka sig taki og reynt að gera hlutina betur en áður voru gerðir og þar hefur orðið allmikill árangur, fram hjá því verður ekki litið.

Ég er hins vegar algjörlega sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal varðandi muninn á fjárlögum og ríkisreikningi. Það er óviðunandi og á því verður tekið. Að því vinnur fjárlaganefnd meðal annars með ýmsum tillögum sínum í þá veru og ég á von á að inn í þingið detti fljótlega mikil og góð skýrsla sem fjallar meðal annars um þessi mál og tillögur nefndarinnar til úrbóta í því.