141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[11:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í kjölfar ummæla formanns fjárlaganefndar verð ég að koma því á framfæri og legg til að þessari umræðu um fjáraukalög fyrir árið 2012 verði frestað því að skýrt ákvæði er í lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, að hún skuli „annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við störf er varða fjárhagsmálefni ríkisins.“

Virðulegi forseti. Með því að vísa ekki fjáraukalögum 2012 til Ríkisendurskoðunar til yfirferðar og fá frá þeim umsögn um það sem betur mætti fara í fjáraukalögum þá er að mínu mati ekki hægt að halda áfram með þessa umræðu. Ég get ekki tekið þátt í því að brjóta lög sem alþingismaður.

Virðulegi forseti. Ég legg því til að umræðunni verði frestað þar til ríkisendurskoðandi hefur fengið sinn tíma til að fara yfir fjáraukalögin.