141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta yfirferð á þessu frumvarpi frá sjónarhorni stjórnarandstöðunnar.

Mig langar að spyrja hann hverjir eru á móti áhættusjóði til að mæta þeim áhættum sem óhjákvæmilega fylgja fjárlögum. Fjárlög eru áætlun fram í tímann og áætlanir hafa það eðli að vera skakkar þegar reynslan kemur í ljós. Er einhver á móti því undir nafni að búa til svona sjóð?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann. Hann talaði um það, og komið hefur fram í umræðunni, að allir séu á því að auka agann í ríkisfjármálum o.s.frv. Nú hefur sýnt sig að munurinn frá fjárlögum til fjáraukalaga er að minnka og er tiltölulega lítill. Meira að segja stundum plús og stundum mínus síðustu þrjú ár. Reyndar eru ekki fleiri ár undir aftur í tímann, sem ég hefði gjarnan viljað sjá, en munurinn og meira að segja tekjuáætlun er orðin mjög góð.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er þessi munur á fjáraukalögum og ríkisreikningi sem sýnir að fólk eyðir peningum sem ekki má eyða samkvæmt stjórnarskrá. Hvaða augum lítur hv. þingmaður það og hvað eigum við að gera til að reyna að laga þá stöðu?

Síðan er það spurningin um lífeyrisskuldbindingar. Talið er að það séu ógreiddir um 300–400 milljarðar í LSR. Það hefur aldrei verið tekið á þessu í fjárlögum eða fjáraukalögum og ég er einmitt að benda á að það er hvorki þessi ríkisstjórn né sú fyrri. Telur hv. þingmaður ekki mál til komið að horfast í augu við þennan vanda?