141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég sagði áðan þegar ég ræddi um svokallaðan óvissusjóð að ég held að margir hv. þingmenn sem gerðu athugasemdir við að hann væri inni hefðu miklar áhyggjur af því að hann yrði misnotaður af stjórnvöldum, settur í verkefni sem hann ætti ekki heima í. Ég hef hins vegar fylgst mikið með því en það getur vel verið að mér hafi sést yfir einstaka mál. Þess vegna kom ég sérstaklega inn á það í minni ræðu að mér finnst sjóðurinn einmitt hafa virkað eins og til var ætlast. Það er auðvitað hægt að rexa og pexa um einhverjar einstaka aðgerðir í hvora áttina sem er þannig að ég staldra ekki lengi við það. Þetta finnst mér hafa virkað mjög vel hjá stjórnvöldum.

Það sem hv. þingmaður kemur inn á er fjáraukinn eða fjárlög, fjárauki, ríkisreikningur. Á undanförnum árum hefur hann aldrei stemmt nokkurn veginn. Þess vegna sagði ég í ræðu minni áðan að þegar við ræðum fjárlög og líka fjáraukalög ársins 2012 verðum við auðvitað að átta okkur á því að ákveðnar væntingar eru um niðurstöðuna. Þetta eru væntingar. Ég hef áhyggjur af því, og það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar, að við teljum að hallinn á ríkissjóði verði frekar nær 50 millj. en 25 þegar búið er að gefa út ríkisreikning.

Hv. þingmaður spurði líka í sambandi við lífeyrissjóðina. Ég kom inn á það í ræðu minni að sá stabbi er náttúrlega gríðarlega stór. Hann er um 500 milljarðar. Og gleymum ekki einu: Þegar við stofnuðum A-deildina átti hún að vera sjálfbær til þess einmitt að losna við B-deildina. Hún var orðin svoddan haugur að það varð að stoppa vitleysuna af en það heldur bara því miður áfram. Nú er hallinn þar kominn í 50–60 milljarða, það eru síðustu tölur sem ég heyrði. Við erum byrjuð aftur, við höldum alltaf áfram á sömu brautinni. Það er eins og við séum bara einhverjir dópistar.

Það er til dæmis eitt í þessum fjáraukalögum núna og fjárlögum 2012. Þar eru tekjur færðar hjá ríkissjóði 300 millj. vegna skatta á lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Hv. þingmaður veit það jafnvel mikið betur en ég að það kemur auðvitað í hinn stabbann á eftir. Það kemur þá einmitt fram í lífeyrisskuldbindingum með ríkisreikningi að ábyrgðirnar hafi hækkað um þessar 300 millj. í ríkisreikningi 2012.