141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo við gerum okkur aðeins grein fyrir því í sambandi við lífeyrissjóðina þá er ekki lengra þangað til B-deildin fer fram af brúninni en til ársins 2024. Þá hrynur sjóðurinn og verður tómur. Þá vantar tugi milljarða á ári inn í hann. Þessi tími er þrjú kjörtímabil. Síðan verðum við að láta A-deildina vaxa. Þetta eru gríðarlega miklar áhyggjur sem menn þurfa að hafa af þeim þáttum.

Við vitum auðvitað um aðra þætti sem er að auka lífeyrisréttindi og annað þar fram eftir götunum. Þetta er eitt af þeim stóru málum sem ég taldi upp í upphafi ræðu minnar. Hversu mikilvægt það væri að átta sig á stöðunni. Ég sagði líka áðan og er alveg heiðarlegur með það: Ég sit í hv. fjárlaganefnd fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og ég hef ekki heildarsýn yfir þau verkefni sem eru fram undan í fjárlögum ríkisins. Ég þekki fjárlögin, fjáraukalögin og lokafjárlögin alveg eins og lófann á mér en heildaryfirsýnina hef ég ekki. Og ég vil bara árétta það sem ég sagði hér áðan við hv. þingmann að ég heyrði það fyrst í fréttum sjónvarpsins eða útvarpsins að Seðlabankinn hefði áhyggjur af því að skuldabréfin milli gamla og nýja bankans gætu ógnað fjármálastöðugleika landsins. Samt á ég sæti í hv. fjárlaganefnd. Þetta hefur aldrei verið rætt þar og aldrei verið kynnt fyrir henni. Þannig er veruleikinn sem við búum við.

Ég tók svo sterkt til orða áðan í ræðu minni, kannski líka til að vekja fólk til umhugsunar, að það kæmi mér persónulega ekki á óvart að innan einhverra ára yrði annað hrun af því að mér finnst við oft og tíðum vera í mjög mikilli afneitun. Verkefnin eru það mikil að ég tel að gera þurfi eins konar samfélagssáttmála milli stjórnar, stjórnarandstöðu, aðila vinnumarkaðarins og fleiri sem koma að því til að horfast í augu við þau verkefni sem eru fram undan. Þau eru mikil og erfitt að leysa þau að mínu mati.