141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2012 þegar árið liggur nokkurn veginn fyrir eða ætti alla vega að liggja fyrir. Það eru tæpir tveir mánuðir til áramóta og ætti nú velflest að liggja fyrir. Auðvitað getur eitthvað gerst sem raskar þessu en fjáraukalög eiga nefnilega að taka á þeim útgjöldum og tekjum ríkissjóðs sem myndast óvænt frá fjárlögum fyrir árið 2012, sem voru samþykkt fyrir áramót í fyrra.

Það er góður siður að reyna að hafa fjárlögin sem allra næst veruleikanum. Fjárlögin eru spá og sem spá eru þau alltaf með einhverja skekkju sem er svo leiðrétt í fjáraukalögum. Þá ætti að liggja fyrir hver skekkjan er og hver endanleg útgjöld og tekjur ríkissjóðs eru.

Það hefur sýnt sig, eins og sést í þessum gögnum, að tekjurnar eru tiltölulega vel metnar. Munurinn á fjárlögum, fjáraukalögum og ríkisreikningi er ekki stór. Ég held að menn geti verið nokkuð ánægðir með það. Einnig getum við verið ánægð með að það er sífellt verið að færa fjáraukalögin og ríkisreikning nær því ári sem um er fjallað. Mér skilst að lokafjárlög hafi komið fram nú í október, en ríkisreikningur kom fram í júní eða júlí, ég veit ekki nákvæmlega hvenær en um það leyti. Ég skil ekki, frú forseti, af hverju er munur þarna á, af hverju þetta var ekki lagt fram samhliða, þ.e. lokafjárlög sem er það sama og ríkisreikningur og ríkisreikningurinn. Þarna tekst ekki og tekst mjög sjaldan að ná góðu jafnvægi. Upphæðir frá fjárlögum til fjáraukalaga sveiflast nokkuð í plús og mínus, eðlilega, tekjur geta breyst og gjöld geta breyst, það getur komið einhver óáran, eldgos, eða menn geta verið heppnir og dottið niður á einhverjar tekjur sem þeir áttu ekki von á eða að einhver útgjöld sem menn bjuggust við urðu ekki, það er mjög oft þannig. Það eru því dálitlar sveiflur á því. Það sem ég er ósáttur við er ríkisreikningurinn sem kemur svo í lokin.

Nú er verið að ræða um árið 2012 og spurningin er: Hvað skyldi ríkisreikningurinn sýna?

Mér skilst, frú forseti, að stærstu fyrirtæki heims, eins og Microsoft, IBM, Chrysler o.s.frv., komi með ársreikninga í febrúar. Þá er búið að gera upp óhemjufjölda færslna um allan heim. Þetta tekst, þetta er hægt og enginn vandi. Með því að færa samtímabókhald er í rauninni hægt að prenta út niðurstöðuna 1. janúar og síðan þarf náttúrlega að leiðrétta eitthvað eins og gengur. Mér finnst að við eigum að stefna að því að ríkisreikningur liggi fyrir í janúar, ef við ætlum að vera mjög metnaðargjörn, eða febrúar, það tel ég vera eðlilegt, og um leið og ríkisreikningur er lagður fram komi lokafjárlög, þá sé dæminu lokað og þá komi strax fram hvað menn voru að fela í fjáraukalögum. Það á við þegar menn taka ekki á hlutum sem liggja fyrir, eins og það sem hér hefur verið nefnt mörgum sinnum, Íbúðalánasjóði, A-deild LSR, sem á að standa undir sér, svo að ég tali nú ekki um ósköpin í B-deildinni sem þarf að sjálfsögðu að greiða einhvern tíma. Ég veit ekki hvaða maður telur að ekki þurfi að greiða það og sá sem telur að þurfi ekki að greiða það mætti gjarnan spjalla við opinbera starfsmenn um eignarrétt og því um líkt og ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Þetta þarf allt að greiða. Það er alveg eins gott að horfast í augu við það strax.

Við sjáum hvernig fór fyrir Grikkjum. Þar var ekki horfst í augu við alls konar skuldbindingar sem var svo auðvelt að lofa, frú forseti. Ég get t.d. lofað forseta 100% lífeyri. Það er enginn vandi að lofa því en það er verra að standa við það. Ég segi ekki að ríkissjóður geti ekki borgað frú forseta 100% laun áfram, en það sem ég er engu að síður að segja er að það er auðvelt að lofa einhverjum skuldbindingum til framtíðar ef skuldbindingin er ekki færð inn strax. Ef hún er skuldfærð strax kemur í ljós hvað hún kostar. Þess vegna er mjög mikilvægt upp á allan aga í fjármálum að færa strax til gjalda það sem menn vita að muni kosta eða falla einhvern tímann á ríkissjóð.

Þegar maður talar við skuldugt fólk, það er víst eitthvað af slíku fólki í þjóðfélaginu sem er ekki með fjármálin öll á hreinu og veit ekki nákvæmlega hvað það skuldar, við þekkjum svona fólk, þá er alltaf það fyrsta sem ég segi við það: Kortleggðu skuldirnar þínar, kortleggðu tekjurnar og settu niður á blað hvernig þú ætlar að greiða skuldirnar. Ef í ljós kemur við þá kortlagningu að dæmið gengur ekki upp geturðu strax spjallað við kröfuhafana og sagt: Dæmið gengur ekki upp. Þess vegna er svo mikilvægt að vita hvað maður skuldar, það er númer eitt, tvö og þrjú, ekki síst fyrir heilt þjóðfélag. Það skiptir verulegu máli að menn viti hvað þeir skulda og horfist í augu við skuldbindingarnar. Hafi menn lofað einhverju, eins og LSR, eiga þeir að standa við það með því að horfast í augu við það og færa það í fjárlög eða fjáraukalög. Það liggur fyrir að þessi skuldbinding er upp á fleiri hundruð milljarða, en hún hefur ekki enn verið færð til bókar. Svo geta menn deilt um hvort færa skuli inn skuldbindingar gagnvart Tryggingastofnun og almannatryggingum, en það er ljóst að við hættum ekkert að borga lífeyrisþegum lífeyri um næstu áramót, frú forseti, það er alveg á hreinu, og ekki heldur þarnæstu áramót. Þar er í gangi skuldbinding sem er ágætt að horfast í augu við. Hún er reyndar mjög stór, jafnvel þúsund milljarðar.

Ég bað um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um hvaða ríkisábyrgð og skuldbindingar eru ekki færðar inn. Til dæmis hafa menn sagt að ábyrgð sé á innstæðum. Síðan hef ég fengið það á hreint að í rauninni er ekki ríkisábyrgð á innstæðum, heldur bara viljayfirlýsing um ábyrgð á innstæðum. Það stendur ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum. Þegar til kastanna kemur og þarf að fara að borga út slík loforð eru þau ekki til staðar. Sú skoðun hefur meira að segja komið fram að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum samkvæmt B-deild LSR. Ég held virkilega að menn ættu að vinda sér í að athuga hvort þar sé ríkisábyrgð og ef svo er að færa upphæðina í fjárlög eða fjáraukalög, eða sleppa því ella og segja: Það er ekki ríkisábyrgð á þessu, við látum B-deildina bara fara á hausinn.

Ríkisendurskoðandi kom með skýrsluna sem ég bað um í janúar 2012. Sú skýrsla var töluvert beitt. Ég hugsa að hún hafi meitt menn dálítið í ráðuneytum, fjármálaráðuneytinu og víðar, því að hann var nokkuð harðorður um vissar ráðstafanir ríkisins. Það leiðir hugann að því að nú hefur formaður fjárlaganefndar neitað að senda fjárlög og fjáraukalög til ríkisendurskoðanda eins og þó ber að gera. Ég ætla að vona að það sé ekki samhengi þarna á milli. Ég ætla að vona, frú forseti, að það sé ekki vegna þess að ríkisendurskoðandi leyfði sér að gagnrýna ákveðnar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar og því sé hann tekinn út sem endurskoðandi ríkisreiknings. Svo er, eins og hér hefur komið fram, mjög slæmt að sá reikningur sem við erum að skoða skuli ekki vera endurskoðaður. Þetta er ekki hægt, frú forseti. Í öllum góðum rekstri telja menn nauðsynlegt að hafa endurskoðanda til að fara yfir reikninga og þó að hann sé eitthvað leiðinlegur og beittur gagnvart stjórninni þá er síst af öllu tækifæri til að segja honum upp sem endurskoðanda. Fyrir utan það, frú forseti, að Alþingi sjálft getur sagt honum upp en ekki einstakir þingmenn, eins og fram hefur komið.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra um fjáraukalög og fjárlög. Ég skora á hv. þingnefnd sem fær þetta til skoðunar milli 2. og 3. umr. að opna augun og horfa á skuldbindingarnar sem blasa við og færa þær inn í fjáraukalög eða fjárlög eftir atvikum, segja bara: Það er alveg eins gott að við sjáum þessar skuldbindingar strax, eins og í B-deildinni, 47 milljarðar — þetta er skuldbinding, við losnum ekkert undan henni, hún hleypur ekki frá okkur, hún er ekkert að fara. Við skulum horfast í augu við hana.

Svo liggur náttúrlega fyrir, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, að allar skattálögur á lífeyrissjóði koma þannig við opinberu sjóðina, eins og LSR, að þær auka skuldbindingu ríkissjóðs. Það er ríkið sem borgar álögur á þeim bæ en ekki sjóðfélagarnir. Skattálögur á lífeyrissjóðina almennt eiga því að koma fram í fjáraukalögum eða fjárlögum. Þær liggja fyrir, það er hægt að reikna þær út. Það getur vel verið að menn vilji ekki sýna þær. Hvað þýðir það í rauninni? Það þýðir að skattálögur koma niður á hinum sjóðunum, almennu sjóðunum, með tvöföldum hætti. Fyrst með því að minnka eignirnar sem standa á móti réttindunum þannig að það þarf að skerða þær meira, þær standa ekki einu sinni undir sér í dag, og síðan þarf að skerða þær því að ríkið er að skatta sjóðina, þá þarf að skerða hinn almenna sjóðfélaga, lífeyrisþegann, vegna skatta á lífeyrissjóðinn. Svo þarf þetta sama fólk, sjóðfélagar í almennu sjóðunum, að borga aukna skatta í framtíðinni vegna LSR, vegna opinberu sjóðanna, því að ríkið borgar það. Ríkið er náttúrlega, frú forseti, ég ætla að undirstrika það, ekkert annað en skattgreiðendur ef einhver skyldi hafa gleymt því.