141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú fara fram prófkjör um allt land þar sem menn kynna sig og sína, hvað þeir eru máttugir og hvað þeir muni gera til að leysa vanda heimilanna, landsins og þjóðarinnar. Hv. þingmaður nefndi fjárfestingaráætlun upp á 6 milljarða — 6 þús. milljónir — sem einn ráðherra kynnti. Það vill svo til að sá ráðherra er í prófkjöri og er að berjast á móti öðrum hjá Samfylkingunni. Getur verið, frú forseti, eða hvernig metur hv. þingmaður það, að þetta sé hluti af prófkjörsbaráttu og hluti af formannskjöri hjá þeim ágæta flokki? Getur verið að menn séu að nota skattpeninga, frú forseti, meira að segja skattpeninga sem ekki er búið að afla, til að fá brautargengi um næstu helgi í prófkjörum sem síðan hefur áhrif á formannskjör innan þess flokks?