141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi gera að umtalsefni í þessari umræðu. Á suma hluti hefur verið minnst fyrr í dag, en mér finnst samt ástæða til að árétta þá.

Það fyrsta er að frumvarp til fjáraukalaga vekur áhyggjur um að enn sé verið að fara þá leið að geta ekki um fyrirsjáanleg útgjöld. Ég tek undir það sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta um það efni. Þetta er auðvitað töluvert alvarlegt mál vegna þess að þegar þingið tekur afstöðu til frumvarpsins eiga að vera í því skýrt fram settar upplýsingar um útgjöld sem eru fallin til. Þarna eiga þingmenn að geta komið að málum, meðan enn er kostur að koma að einhverjum athugasemdum, til að fá upplýsingar og skýrari heildarmynd af stöðu ríkisfjármála en ella. Eins og fram hefur komið hafa upplýsingar um stórar færslur eða ábyrgðir hjá ríkinu verið að detta inn síðar í ríkisreikning og lokafjárlög löngu eftir að þeir atburðir eru liðnir sem verið er að fjalla um. Það gerir að verkum að ekki er verið að fjalla um stöðu ríkissjóðs á þeim forsendum sem eru réttastar og gefa réttasta mynd af stöðu mála. Þetta vandamál er enn þá fyrir hendi og ástæða til að geta um það við þessa umræðu.

Í annan stað ætlaði ég að nefna að afgreiðsla fjáraukalaga nú eftir umfjöllun í nefnd er sérstök í ljósi þess að fjáraukalagafrumvarpið og þær tillögur sem þar eru til umfjöllunar hafa ekki fengið þá utanaðkomandi skoðun óháðs aðila sem venja er þegar fjáraukalög eru borin undir þingið. Það er löng hefð fyrir því í þinginu að Ríkisendurskoðun hefur farið yfir frumvörp og tillögur að þessu leyti, lagt mat á hvort rétt sé fært til bókar, tillögur rétt fram settar og annað þess háttar, sem skiptir töluvert miklu máli þegar menn reyna að átta sig á fjármálum ríkisins.

Eins og aðrir þingmenn hafa bent á hefur Ríkisendurskoðun á undanförnum árum gert ýmsar athugasemdir við framsetningu einstakra liða í fjáraukalögum, stundum við litlar vinsældir af hálfu fjármálaráðuneytis eða fjármálaráðherra hvers tíma og ríkisstjórnarmeirihluta. Nú tók meiri hluti fjárlaganefndar þá ákvörðun að leita ekki til Ríkisendurskoðunar um þetta mikilvæga mál, af ástæðum sem eru algjörlega óviðkomandi fjáraukalögunum sjálfum og vinnu sem þeim tengist. Við þekkjum þá umræðu. Vantraust sem einstakir þingmenn og nefndarmenn í einstökum nefndum hafa ítrekað látið í ljós í garð ríkisendurskoðanda og segja að af þeim sökum eigi ekki að leita til Ríkisendurskoðunar um að fara yfir frumvörp til fjáraukalaga. Þá hefði maður haldið að þessi sami meiri hluti sem taldi að Ríkisendurskoðun ætti ekkert með athugun á fjáraukalögum að gera, vegna þess að einhver skýrsla um allt annað efni hafði dregist eins og menn þekkja, mundi leita til einhvers annars, fá óháð mat og einhverja yfirsýn og ráðgjöf um það hvernig ætti að meðhöndla þetta. En það var ekki gert.

Ég þori að fullyrða að fjáraukalög hafa aldrei verið afgreidd úr nefnd á grundvelli jafnlítillar skoðunar og nú. Það hefur enginn utanaðkomandi verið spurður um það hvort þessar færslur standist, hvort þær aðferðir sem notaðar eru við framsetninguna séu í lagi. Það hefur bara enginn verið spurður um það. Var leitað til einhvers sérfræðings á sviði ríkisfjármála, hagfræðings, endurskoðanda, viðskiptafræðings, lögfræðings sem hefur vit á þessum málum? Það kemur ekki fram í nefndaráliti meiri hlutans. Meiri hlutinn kýs með öðrum orðum að afgreiða málin án þess að fara þá leið sem venja er við afgreiðslu fjáraukalaga; að fá óháðan, sérfróðan aðila til að fara yfir frumvarpið.

Ég ætla ekki að halda því fram að það sé vegna þess að menn óttist eitthvað, að menn þori ekki að fá álit óháðs aðila, ég ætla ekkert að fullyrða um það, en ég spyr: Hvers vegna var það ekki gert? Hvers vegna? Ef ekki var hægt að treysta ríkisendurskoðanda og starfsmönnum hans, sextíu og eitthvað starfsmönnum, til að fara yfir fjáraukalögin út frá þeim venjulegu forsendum og vinnubrögðum sem beitt hefur verið um ár og áratugi, var þá ekki ástæða til að leita til einhvers annars? Eða var þessi óháða, utanaðkomandi skoðun á fjáraukalögunum allt í einu bara óþarfi af því ríkisstjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin er svo frábær og óskeikul? Hver er skýringin?

Af hverju fékk meiri hluti fjárlaganefndar, fyrst hún treysti Ríkisendurskoðun ekki til að gera þetta, ekki álit einhvers annars aðila? Er hún þeirrar skoðunar að þær athugasemdir sem hafa komið fram á undanförnum árum við frumvörp eins og frumvörp til fjáraukalaga hafi verið algjörlega tilefnislausar, óþarfar og ástæðulausar? Er meiri hlutinn þeirrar skoðunar?

Það væri gott ef menn vildu tjá sig um það. Það væri gott ef einhver við þessa umræðu mundi upplýsa um það hvort meiri hluti fjárlaganefndar sé einfaldlega þeirrar skoðunar að þetta frumvarp til fjáraukalaga, ólíkt öllum öðrum frumvörpum til fjáraukalaga bæði fyrr og síðar og annarra mikilvægra frumvarpa sem varða ríkisfjármálin, sé bara allt í einu þannig að það þarfnist engrar sérstakrar skoðunar, að enginn utanaðkomandi aðili þurfi að láta álit sitt í ljós, að engar athugasemdir þurfi frá öðrum en starfsmönnum ráðuneytanna. Er það svo?

Þetta vekur furðu. Þessi vinnubrögð vekja furðu og hljóta að verða endurskoðuð milli 2. og 3. umr. Það hlýtur að vera. Það er óskiljanlegt og ótrúlegt ef meiri hlutinn í fjárlaganefnd ætlar ekki að minnsta kosti milli 2. og 3. umr. að fá óháðan, utanaðkomandi og sérfróðan aðila til að fara yfir fjárlagafrumvarpið og athuga hvort í því er eitthvað sem betur má fara.

Væru það á einhvern hátt slæm vinnubrögð að láta utanaðkomandi, óháðan aðila fara yfir fjáraukalögin, frumvarpið og breytingartillögurnar? Er eitthvað að slíkri málsmeðferð? Nei, auðvitað ekki. Það eru venjuleg vinnubrögð í þinginu og venjuleg vinnubrögð við afgreiðslu mikilvægra mála að fá álit utanaðkomandi aðila, einhverra sem ekki eru sjálfir tillöguhöfundar, á því sem þarna stendur. Í þessu tilviki þegar um er að ræða ríkisfjármálin er Alþingi með sérstaka stofnun sem hefur það hlutverk að fara yfir þessi mál, sérstaka stofnun sem að lögum hefur sjálfstæði og hefur það verkefni og það hlutverk að fara meðal annars yfir fjáraukalögin og skila umsögn um þau. Á einhver persónulegur pirringur einstakra þingmanna í stjórnarmeirihlutanum í garð ríkisendurskoðanda að koma í veg fyrir að stofnunin skili sínu verki um þetta efni? Það er algjörlega óskiljanlegt.

Hæstv. forseti. Jafnvel þótt meiri hlutinn í hv. fjárlaganefnd væri þeirrar skoðunar að ríkisendurskoðandi væri ófær um að skila verki varðandi fjáraukalögin, jafnvel þótt hann væri þeirrar skoðunar að Ríkisendurskoðun í heild væri ófær um að leggja mat á fjáraukalögin, hefði verið lágmarksviðleitni af hálfu þessa sama meiri hluta að finna einhvern annan, leita til einhvers annars óháðs aðila. En þau vinnubrögð sem birtast hér af hálfu meiri hlutans eru með öllu óforsvaranleg.

Ég lýsi eftir því að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, eða einhver annar úr þessum ágæta meiri hluta, lýsi því hvers vegna ekki var talin nein þörf á utanaðkomandi áliti eða umsögn um fjáraukalagafrumvarpið. Var algjör óþarfi að fá umsagnir annarra aðila? Hafa umsagnir um fjáraukalagafrumvörp undanfarinna ára verið fullkomlega tilefnislausar og óþarfar? Er ekkert að marka þær athugasemdir sem fram hafa komið á fyrri árum? Er verkið svo fullkomið eins og það kemur frá fjármálaráðuneytinu núna að það þarf engar athugasemdir, engar umsagnir, ekkert álit einhvers sem ekki er sjálfur tillöguhöfundur? Er það þannig?

Eigum við þá ekki að taka upp svipuð vinnubrögð í öðrum málum, vera ekkert að tefja okkur á því að tala við utanaðkomandi aðila og fá álit þeirra? Það hlýtur sérstaklega að vera óþarfi að tala við þá sem lögum samkvæmt hafa lögboðið hlutverk við skoðun svona mála. Það hlýtur að vera ef þessi vinnubrögð meiri hlutans í fjárlaganefnd eiga að vera fyrirmynd og fordæmi fyrir afgreiðslu annarra mála í þinginu.