141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er nú frekar andvígur því ef út í það er farið. En athugasemdir sem ég gerði áður en hv. þm. Björn Valur Gíslason kom í salinn lutu meðal annars að því að ég hefði áhyggjur af því að þarna væru ekki færð öll þau gjöld sem ljóst væri að mundu falla á ríkið á því ári sem um ræðir. Það var ein efnisleg athugasemd sem fram kom.

Ég tel að athugasemdir af hálfu aðila eins og Ríkisendurskoðunar mundu leiða slíkt í ljós. Ég tel, í ljósi reynslunnar, að ef einhver utanaðkomandi aðili, sem ekki væri annaðhvort starfandi í fjármálaráðuneytinu eða í meiri hluta í hv. fjárlaganefnd, kæmi að þessu verki og hefði þann aðgang að gögnum sem nauðsynlegur er, kæmi í ljós að fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins væru meiri en koma fram í frumvarpinu. Þá held ég að gerðar yrðu athugasemdir við að ætlunin sé að taka einhver gjöld inn í ríkisreikning og lokafjárlög eftir langan tíma sem með réttu ætti að færa inn í fjáraukalögin. Ég hef að minnsta kosti áhyggjur af því. Ég mundi að minnsta kosti vilja fá álit einhvers utanaðkomandi aðila.

Nú kann að vera að hv. þm. Björn Valur Gíslason og félagar hans í meiri hlutanum í fjárlaganefnd telji að ríkisendurskoðandi sé algjörlega ófær um að láta í ljós álit á fjáraukalögunum. Það kann að vera. Það kann að vera að meiri hlutinn í fjárlaganefnd sé þeirrar skoðunar að Ríkisendurskoðun sem stofnun sé algjörlega gagnslaus í sambandi við það að fara yfir fjáraukalögin, það getur verið. En getur hv. þm. Björn Valur Gíslason gefið skýringar á því af hverju ekki var leitað eftir áliti einhvers annars utanaðkomandi aðila, einhvers sem hefði getað lagt mat, óháð mat, á fjáraukalagafrumvarpið og þær tillögur sem þar er að finna, einhvers sem ekki er annaðhvort hluti af starfsliði fjármálaráðuneytisins eða (Forseti hringir.) í meiri hlutanum í hv. fjárlaganefnd?