141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012. Þar sem þetta mál er á dagskrá tel ég ástæðu til að ræða almennt um það hvernig við setjum fjárlög á Íslandi. Það hefur vakið mér furðu hversu erfitt virðist vera að halda áætlanir og hversu frjálslega mér þykir við fara með ríkissjóð. Ríkissjóður er rekinn með halla. Við skuldum mikla fjármuni. Þegar af þeim orsökum tel ég rétt að við sýnum mikinn aga í vinnubrögðum okkar við fjárlagagerðina. Það hefur því verið athyglisvert að fylgjast með umræðum hv. þingmanna í fjárlaganefnd hér í dag og eins að lesa þau álit sem þeir hafa gefið frá sér.

Í upphafi kjörtímabilsins, svo að maður fari nú í örlitla sögulega skoðun, var varla þverfótað í pontu fyrir þingmönnum sem töluðu um gagnsæi, bætt vinnubrögð, um að nú skyldi allt vera uppi á borðum og vandað til verka. Eitt af því sem vakti athygli mína var skýrsla fjármálaráðherra, um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, þar sem sett voru fram nokkur markmið við stjórn ríkisfjármála. Þau markmið eru reifuð í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og ágætt að menn haldi þeim til haga. En síðan er það spurning hvort menn hafi staðið við þau stóru orð að fylgja þessum markmiðum.

Miðað við það frumvarp sem hér er rætt tel ég svo ekki vera og verð ég að taka undir þau sjónarmið sem birtast okkur þar að lútandi í nefndaráliti 1. minni hluta. Markmiðið með þessari áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum var að auka aga í framkvæmd fjárlaga. Ég tel einfaldlega nauðsynlegt að gera það. Gæta átti aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri og eins að tryggja að ef markmiðum um lækkun útgjalda yrði náð mundu stjórnvöld auka áherslu á ábyrgð ráðuneyta og stofnana og auka almennt eftirlit með rekstri. Síðan átti að auka og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga. Tökum eftir því að auka átti eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga.

Síðan birtist okkur þessi afgreiðsla nefndarinnar, sem á eftir að fara í atkvæðagreiðslu hér í þinginu, um fjáraukann. Ég verð að segja, herra forseti, að það veldur áhyggjum að við séum ekki á réttri leið og að við séum hér í þinginu ekki áttuð á þeirri alvarlegu stöðu sem ríkissjóður er í.

Þegar maður er í vanda er oft gott að leggja niður fyrir sér, áður en maður byrjar að taka á honum, nákvæmlega hver vandinn er. Við erum með eitt gott dæmi hér sem er Íbúðalánasjóður. Hann er í vanda, hann uppfyllir ekki þær kröfur sem til hans er gerðar og hefur óskað eftir auknu fjármagni. Hér kemur fram að forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs hafi óskað eftir 12 milljarða kr. fjármagni aukalega til að sjóðurinn geti staðið undir hlutverki sínu og hægt sé að fjármagna hann í samræmi við þær reglugerðir sem um hann gilda varðandi eiginfjárhlutfall. Í frumvarpinu er ekkert að finna um að tekið sé á vandanum, hann er enn einhvers staðar falinn í kerfinu og birtist ekki hér.

Ég spyr: Hvar á þetta að birtast? Þetta kemur ekki inn í 2. umr. um fjáraukalögin. Á þetta að koma inn fyrir 3. umr.? Eða á einfaldlega að halda þessu áfram, á þetta að koma inn í lokafjárlög fyrir árið 2012? Hver er stefnan hjá þeim sem stjórnar landinu varðandi mál Íbúðalánasjóðs? Rétt er að það komi fram að eftir því sem mér skilst koma lokafjárlög, ef það er stefnan að þetta komi þar inn, ekki út fyrr en eftir kosningar. Þá þurfa þeir sem fara með þessi mál varla að standa skil á máli sínu fyrir kosningar.

Þessi mikli vandi Íbúðalánasjóðs er ágætlega reifaður í nefndaráliti 1. minni hluta. En punkturinn hjá mér er sá að það þýðir ekki að stinga vandanum undir stól, maður verður að koma með hann upp á borðið. Ég vil minna á orð hv. þingmanna úr öllum flokkum, sem hér hafa talað fyrir gegnsæi, skýrri stjórnsýslu og að allt skuli vera uppi á borðum, og kalla eftir því hvar maður sjái þeim orðum stað hvað varðar málefni Íbúðalánasjóðs. Hvar er það? Talað er um að þetta sé í einhverri nefnd og engin ástæða til að koma með þetta inn, las ég í fjölmiðlum í dag, en þetta eru einfaldlega ekki boðleg vinnubrögð, herra forseti.

Í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér hér stað í gær eða fyrradag, um tillögur til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs, er vert að ræða aðeins hugmyndir þingmanna um það hvernig hægt er að lækka útgjöld ríkissjóðs. Verður einhvern tímann hægt að grípa til viðamikilla aðgerða í þá átt að minnka útgjöld ríkissjóðs? Fróðlegt væri að vita hvort fram hafi farið sérstök umræða um það í fjárlaganefnd, einhvern veginn finnst manni þetta alltaf leggjast á hina hliðina.

Í þessum gögnum og í þessu máli kemur jafnframt fram að vaxtagjöld ríkissjóðs vegna erlendra lána eru sífellt að aukast og virðist engin stjórn á þeim útgjöldum. Vaxtagjöld af erlendum lánum hafa hækkað um 3,2 milljarða miðað við þessa niðurstöðu. Ekki hefur verið gert ráð fyrir lántökum hjá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi í lok árs 2011 sem og skuldabréfaútgáfu á erlendum mörkuðum í maí, sú skuldabréfaútgáfa nam einum milljarði bandaríkjadala. Hver er stefnan í þessu? Hvernig birtist sú stefna meiri hlutans okkur?

Hér er í raun verið að breyta lántökunni. Það lá ekki fyrir við gerð fjárlaga í desember hvort dregið yrði á þessi Norðurlandalán. Ekki var tekin ákvörðun um það fyrr en á síðustu dögum ársins og þá var ákveðið að hækka erlendar heildarskuldir ríkissjóðs um 7% af vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram á bls. 5 í nefndaráliti 1. minni hluta.

Í mars var tekin ákvörðun um að greiða niður Norðurlandalánin, upp á 44,5 milljarða, og síðan var gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa til 10 ára sem nema einum milljarði bandaríkjadala, eða á þágildandi verðlagi 124,5 milljörðum íslenskra króna. Ákveðið var að nýta þá útgáfu til niðurgreiðslu þessara lána, erlendra skulda ríkissjóðs, þ.e. þessara Norðurlandalána. Niðurstaðan er sú að vaxtakostnaður erlendra lána eykst sem nemur lántökunni í árslok 2011, auk þess sem vextir eru hærri. Vextir nýju lánanna eru hærri en lán Norðurlandanna sem voru greidd niður. Hver er hugsunin í þessu? Er þetta einhver tilraunastarfsemi, eins og ýjað er að eða fullyrt í nefndaráliti 1. minni hluta? Hver er þá tilgangurinn? Erum við ekki að reyna að laga stöðu ríkissjóðs? Eigum við ekki að reyna að vera með sem hagstæðust lán, reyna að minnka lántöku og draga úr útgjöldum? Hvar sér maður þess stað í þessu frumvarpi? Hvergi.

Herra forseti. Ég hef jafnframt ákveðnar áhyggjur af því að útgjöld, t.d. hvað varðar bótagreiðslur, hafi verið stórlega vanáætluð. Þá spyr maður sig: Hvernig er verið að breyta og bæta áætlanagerðina fyrir þau fjárlög sem við höfum til umræðu fyrir næsta ár? Hefur verið ráðist í eitthvert þrekvirki við að breyta þeirri áætlanagerð? Ég tel ljóst að svara þurfi þeirri spurningu. Það gengur ekki að við setjum hér fram fjárlög sem öllum er ljóst að standast ekki, að það eigi einfaldlega að redda því með því að bæta inn í fjáraukann og ef um er að ræða eitthvað óþægilegt sem maður vill ekki að komi fram þá laumar maður því bara inn í lokafjárlögin. Þetta getur ekki virkað svona, herra forseti, og vekur manni ákveðinn ugg í brjósti um að menn hafi ekki yfirsýn yfir verkefnið sem við blasir og hafi einfaldlega ekki hugsað málið í heild sinni og til enda.

Margir þingmenn hafa minnst á Ríkisendurskoðun og hvers vegna fjárlaganefnd sendi frumvarpið ekki þangað til umsagnar. Það vekur mér töluverða furðu þar sem Ríkisendurskoðun er nú stofnun á vegum Alþingis. Ég tel, sem þingmaður og einn af þeim sem sitja í forsætisnefnd, að einstakir þingmenn úr fjárlaganefnd hafi ekki heimild til að skera á þau tengsl sem Alþingi hefur við Ríkisendurskoðun. Það er ekki þeirra hlutverk, það er ekki í þeirra verkahring og það er einfaldlega ekki við hæfi að það sé gert. Það vekur mér mikinn ugg í brjósti að þingmenn séu þannig þenkjandi, taki sér vald sem þeir ekki hafa.

Við erum að tala um sjálf fjárlögin. Miðað við vinnubrögðin er full þörf á því að fá álit ríkisendurskoðanda. Það er ekki alltaf þægilegt að fá það, alls ekki, en maður hlýtur að vilja fá utanaðkomandi álit á því hvað við erum að gera hér. Niðurstaðan á undanförnum árum og í gegnum tíðina hefur sýnt okkur að full þörf sé á því að fara yfir þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þinginu varðandi setningu fjárlaga og ekki síður nú í dag en oft áður.