141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008.

Þetta frumvarp var boðað hér undir vor í fyrra en er nú lagt fram í fyrsta sinn. Með framlagningu þess er að því stefnt að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi og af því leiðir að í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla verði felld undir lög um opinbera háskóla og lög um búnaðarfræðslu falli brott. Með þessu er tekið mikilvægt skref til að einfalda lagaumgjörð þessara opinberu háskóla.

Jafnframt er lagt til að skipan háskólaráða fari fram með samræmdum hætti í öllum opinberum háskólum landsins þannig að Landbúnaðarháskólinn og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum falli undir lög um opinbera háskóla. Samkvæmt lögum um opinbera háskóla er ekki leitað beint til hagsmunaaðila heldur eru utanaðkomandi valdir með faglegu mati af þeim sem eru fyrir í háskólaráði og þannig eflist fagleg umfjöllun háskólaráða og sjálfstæði þeirra gagnvart utanaðkomandi hagsmunum, en ég tel að fyrirkomulag á skipan háskólaráða í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri hafi reynst skólunum vel. Því var raunar breytt með lagabreytingu fyrir tveimur árum og ég tel að líka hafi verið ánægja með þá breytingu.

Virðulegi forseti. Meginatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Eins og ég hef nefnt, að samræma lagaumhverfi opinberu háskólanna og jafna starfsskilyrði þeirra. Þetta ætti að einfalda og skýra um margt lagaumgjörðina og jafna starfsskilyrði þeirra.

Í öðru lagi er hér lagt til að lögfesta samstarfsnet opinberra háskóla sem ég hef nefnt háskólanet en opinberir háskólar hafa, eins og hv. þingmönnum er kunnugt, haft með sér samstarf frá árinu 2011 um margvíslega þætti sem tengjast stoðþjónustu og gæðamálum auk annars sem telst til kennslu og rannsókna. Í frumvarpinu er lagt til að þessi samstarfsvettvangur verði festur í sessi með sérstöku lagaákvæði þar sem hlutverk samstarfsins sé skýrt en gera má ráð fyrir auknu samstarfi opinberu háskólanna og samþættingu námsframboðs sem og auknu samstarfi á sviði rannsókna. Samstarf þeirra mun opna ýmsa möguleika sem munu nýtast nemendum vel og til að mynda gefur samnýting námskeiða nemendum tækifæri á að sækja námskeið sem ekki eru í boði í þeim skóla sem viðkomandi nemandi stundar nám í. Þannig getur slíkt samstarf aukið val nemenda, tryggt fjölbreyttara námsframboð óháð búsetu. Ákvæðið byggist á starfi samstarfsnets opinberu háskólanna sem hefur verið við lýði undanfarin tvö ár með góðum árangri.

Í þriðja lagi er lagt til að opinberum háskólum verði veitt heimild til að taka svokallað umsýslu- og afgreiðslugjald af nemendum með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins. Tilgangurinn er fyrst og fremst að fækka ófullnægjandi umsóknum frá aðilum utan EES. Þróunin hefur verið sú að þeim hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og ein skýringin á þeirri þróun er sú að Danmörk, Svíþjóð og Finnland hafa tekið upp skólagjöld fyrir nemendur utan EES. Hér verður lagt til að opinberum háskólum verði ekki veitt heimild til að taka upp skólagjöld heldur að taka svokallað umsýslu- og afgreiðslugjald og þá stendur það undir þeim kostnaði sem hlýst af því að taka við og afgreiða umsóknir frá nemendum utan EES.

Í fjórða lagi er lagt til að tiltekin ákvæði laga um opinbera háskóla séu löguð að þeim breytingum sem urðu á lögum um háskóla á 140. löggjafarþingi, til að mynda ákvæðum um hæfisskilyrði starfsmanna háskóla. Í þeim nágrannaríkjum Íslands sem við berum okkur oftast saman við er doktorspróf í flestum tilvikum forsenda fyrir ráðningu í akademísk störf. Með frumvarpinu er ætlað að tryggja gæði kennslu og rannsókna í opinberum háskólum og að þekking og reynsla sé í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á hverju fræðasviði.

Virðulegi forseti. Rétt er að geta þess að gerðir hafa verið sérstakir samningar við alla háskóla landsins um kennslu og rannsóknir þeirra árin 2012–2016 ásamt sérstökum viðaukum sem lýsa starfsemi skólanna, markmiðum þeirra og stefnu.

Í samningi Landbúnaðarháskóla Íslands er nánar fjallað um þjónustu og verkefni skólans. Þar segir að skólinn skuli veita nemendum og kennurum nauðsynlega þjónustu og aðbúnað sem almennt tíðkast vegna náms í auðlinda- og búvísindum og náttúruvísindum, m.a. á námsbrautum í landbúnaðarfræðum, landnýtingarfræðum, náttúrufræðum og auðlinda- og umhverfisfræðum. Jafnframt er þar áréttað að háskólinn skuli reka starfsmenntanám á framhaldsskólastigi á sviði garðyrkju og búfræði sem einnig nýtist sem aðfararnám inn á háskólabrautir. Um það nám skal gert sérstakt samkomulag og er ráðgert að samningsgerð um framboð og fjármögnun náms á framhaldsskólastigi verði lokið fyrir árslok 2012. Samkvæmt þessum samningi er því lögð áhersla á að styrkja námsframboð skólans á sviðum framhaldsfræðslu og starfsmenntabrautum hans. Um langan tíma hefur markmiðið verið að færa starfsmenntanám skólans, til að mynda í búfræði og garðyrkju, nær skipulagi framhaldsskóla, m.a. til að tryggja mat á náminu og tengsl þess við hinn almenna framhaldsskóla.

Með breytingum á lögum um opinbera háskóla og samningi um kennslu og rannsóknir Landbúnaðarháskóla Íslands 2012–2016 ásamt viðauka er verið að tryggja stöðu starfsmenntanámsins til framtíðar og styrkja tengsl þess við hinn almenna framhaldsskóla. Nú er að hefjast vinna við útfærslu samningsákvæðis um starfsmenntanámið og verður haft samráð við hagsmunaaðila eftir því sem tilefni er til. Vel þekktar fyrirmyndir eru annars staðar á Norðurlöndunum þar sem háskólar reka starfsmenntabrautir með líkum hætti og er boðað gagnvart Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í samningi ráðuneytisins við Landbúnaðarháskólann er enn fremur kveðið á um að hann sinni vísindarannsóknum, þróunarstörfum, öflun og miðlun þekkingar á fræðasviðum sínum með áherslu á nýsköpun og öflug tengsl við atvinnulíf. Áframhaldandi öflug tengsl við atvinnulífið, Bændasamtök Íslands, búgreinafélög og önnur fagfélög landbúnaðarins, fyrirtæki bænda og einstaka bændur eru því skólanum afar mikilvæg.

Ástæða þess að ég nefni þetta sérstaklega hér er að ég hef orðið vör við áhyggjur úr atvinnugreininni, af hálfu Bændasamtakanna og einstakra búnaðarsamtaka, af því að þetta hlutverk verði ekki lengur lögbundið með sama hætti og verið hefur. Ég ítreka að mat okkar byggir á reynslu. Tengsl háskóla við atvinnulíf snúast ekki fyrst og fremst um að þau séu bundin í lögum heldur snúast þau fyrst og fremst um það hvernig skólunum er stjórnað. Mikil áhersla verður lögð á að þessir skólar verði áfram í mjög sterkum tengslum við atvinnulífið rétt eins og allir okkar háskólar eru í tengslum við það atvinnulíf sem þeir sinna með kennslu sinni og rannsóknum. Að sjálfsögðu hlýtur það að vera samhljómur allra sem fjalla um þessi mál að mikilvægt sé að þessi tengsl séu góð. Ég tala þá ekki aðeins um tengsl skólanna við atvinnulífið því að í þessu tilfelli er líka mikilvægt að skólarnir séu í sterkum tengslum við stjórnsýsluna, þar á meðal atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, sem málefni landbúnaðar falla undir, og umhverfis- og auðlindaráðuneyti og auðvitað hagsmunasamtök á borð við Bændasamtökin þar sem fram fer mikil umræða um landbúnað.

Við reglubundna endurskoðun á viðauka samningsins sem fer fram tvisvar á ári er meðal annars fjallað um stefnu, markmið og viðfangsefni skólans. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gerir ráð fyrir að fulltrúar fyrrgreindra ráðuneyta og hagsmunaaðila verði kallaðir til þegar fjallað er um stefnumótun, viðfangsefni og tengsl skólanna við atvinnulíf á samráðsfundum skólans og ráðuneytis. Ég tel að það fyrirkomulag á samráði tryggi víða aðkomu hagsmunaaðila, stefnumótun skólans með í raun formlegri, skilvirkari og gagnsærri hætti en verið hefur.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta frumvarp, virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.