141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það kemur fram að markmiðið með framlagningu frumvarps þessa er að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar áhyggjur af rekstri beggja þeirra skóla sem hér eru nefndir, kannski ekki að ástæðulausu. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir auknum framlögum til Landbúnaðarháskólans vegna búnaðar- og starfsmenntanáms á framhaldsskólastigi sem ekki liggur fyrir áætlun um af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis á þessu stigi, en gera verður ráð fyrir að þau framlög rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins eins og hingað til.“

Ég hef miklar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að gert sé ráð fyrir að fjárlögin rúmist innan fjárlagaramma ráðuneytisins. Við vitum að það er mikill fjárhagsvandi hjá þessum skólum og því hefur verið haldið fram af forustumönnum þeirra að þeir hafi ekki fengið öll þau framlög sem þeir áttu að fá þegar þeim var breytt í háskóla, og nú á að samræma lögin.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að þessi lög eiga að taka gildi í júlí 2013, ef þau taka gildi, hvort það sé þá ekki mikilvægt að þeim fylgi eitthvert fjármagn, hvort það séu ekki ákveðnar kvaðir, eins og kemur reyndar fram, og hvort megi gera ráð fyrir því að það komi breytingartillögur á fjárlögum 2013 til að verða við þeirri útgjaldaaukningu sem kveðið er á um í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis.