141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þessu. Samstarfsnetið var ekki af okkar hálfu hugsað sem hagræðingaraðgerð í sjálfu sér. Samstarfsnet opinberu háskólanna er hugsað sem tæki til þess að geta eflt gæði þvert á háskóla til að tryggja það að skólarnir geti lært hver af öðrum, nýtt sér þá þróun og tækni sem hver og einn er að þróa. Hugsun okkar var sú að á tímum mikils niðurskurðar í háskólakerfinu, yfir 20% á þremur árum, væri þetta tæki sem lítill tilkostnaður væri við fyrir ríkið miðað við þann árangur sem við gætum náð af því. Hugsunin er sú að nýta þá fjármuni til að hjálpa skólunum að fylgja þeirri stefnu sem við höfum sett og samþykkt um gæði í háskólastarfi og gera það með sem minnstum tilkostnaði, þannig að þeir skólar séu ekki hver og einn að fást við þetta í sínu horni heldur nýti þeir einn sameinaðan sjóð til þess.

Það sem hefur verið gert er sameining á tölvukerfum og stoðþjónustu. Farið hefur verið í nauðsynlegar fjárfestingar að mínu viti. Ég get nefnt sem dæmi kaup á ritstuldarhugbúnaði, sem er mjög brýnt að allir háskólar hafi yfir að ráða, og kostar að sjálfsögðu minna þegar lagt er saman, þ.e. að hver og ein stofnun sé ekki að fjárfesta í slíkum búnaði. Það eru fleiri slík atriði sem skipta okkur verulegu máli ef við viljum reka markvissa gæðastefnu innan háskólanna.

Hugsunin á bak við netið er — já, það er tvímælalaus árangur. Hann hefur ekki endilega verið til hagræðingar en hann hefur gert það að verkum að skólarnir hafa getað haldið uppi gæðum með ódýrari hætti en ella.