141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þá trú og sú trú hefur staðfest það fremur en hitt í kringum þetta þróunarverkefni að skólarnir sem slíkir séu jákvæðir gagnvart netinu því að þeir sjá hag í því, það skapar aukna möguleika fyrir nemendur. Af því að við höfum verið að ræða um Hvanneyri þá eru þar gríðarlegir möguleikar á fjölbreyttara námi fyrir nemendur sem eru að stunda til dæmis líffræðinám við Háskóla Íslands að geta tekið hluta af því til að mynda í gegnum búvísindanám Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og að sjálfsögðu öfugt, þannig að við höfum þar ýmsa möguleika.

Ætlast er til þess í lögunum að ráðherra muni setja samstarfsnetinu nánari starfsreglur þar sem er kveðið á um það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hver staða þess verði gagnvart stjórnsýslu opinberu háskólanna. Þetta hefur ekki skapað vandamál hingað til, ég tek það fram, við byggjum þetta net að sjálfsögðu upp á fulltrúum skólanna og við reiknum væntanlega með því að þar þurfi háskólaráð hvers skóla að hafa ákveðnu hlutverki að gegna gagnvart samstarfsnetinu. Þannig sjáum við þetta fyrir okkur, að við fórnum ekki hinu lýðræðislega skipulagi sem felst í háskólaráðum skólanna. En eins og hv. þingmaður þekkir vel, sem sat í háskólaráði Háskóla Íslands einhvern tíma í árdaga þar sem saman komu deildarforsetar ólíkra deilda — og síðar kom ég að sama ráði í sama hlutverki, þ.e. fulltrúi stúdenta — að mestu máli skiptir einmitt að samræma sjónarmið. Í háskólaráðum skólanna er yfirleitt ekki verið að ræða fagleg málefni einstakra deilda eða sviða heldur fremur verið að tala um heildarsýnina og kannski má segja það sama um samstarfsnetið.