141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

gengistryggð lán og verðtryggð lán.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í gær var í sjónvarpsþætti formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins þar sem hann tók fram að staðan í gengislánamálum kallaði á aðgerðir vegna verðtryggðra lána, kallaði á aðgerðir fyrir fólk sem er með verðtryggð lán og er að sligast, eins og formaðurinn sagði. Ekkert slíkt mál er í þinginu og engar slíkar aðgerðir hafa verið boðaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við vitum samt alveg hver bakgrunnur þessara ummæla er, sá að staða þeirra sem voru með gengistryggð lán sem nú hafa verið dæmd ólögmæt er mjög ólík stöðu þeirra sem voru með verðtryggð lán.

Ég er hér til dæmis með útreikninga sem sýna þegar tveir einstaklingar tóku lán í janúar 2006, keyptu fasteignir fyrir 20 milljónir og voru með 30% eiginfjárhlutfall. Staða þessara tveggja lána hefur þróast með þeim hætti að verðtryggða lánið stendur í dag í 20 milljónum en gengistryggða lánið í 13 milljónum. Það sjá allir hversu gríðarlega mikill munur er þarna á, að hluta til eins og ég sagði vegna þess að gengistryggða lánið hefur verið fundið ólögmætt í millitíðinni.

Stóra spurningin er þessi: Er eitthvað á prjónunum hjá ríkisstjórninni til að koma til móts við þá sem eru að sligast, eins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur nefnt í þinginu? Er eitthvað á prjónunum hjá ríkisstjórninni til að koma til móts við þá sem eru að sligast vegna verðtryggðra lána? Ýmislegt hefur verið boðað vegna lánsveða og annarra slíkra mála en þarna er komið að kaflaskilum þegar formaður í berandi nefnd (Forseti hringir.) í þinginu telur óumflýjanlegt að grípa til aðgerða.