141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

vextir af lánum frá Norðurlöndum.

[13:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. ráðherra telji fullt tilefni til að reyna að semja á ný um vextina af þessum lánum. Umræðan um þessa lántöku á sínum tíma, af hálfu ríkisstjórnarinnar, var hins vegar iðulega á þeim nótum að þarna væru Norðurlöndin að gera Íslendingum sérstakan greiða og svo mikinn greiða að við ættum jafnvel að sætta okkur við að taka á okkur Icesave-kröfurnar til þess að af þeim greiða yrði.

Nú er hins vegar ljóst að þarna var um að ræða lán á töluvert háum vöxtum og það er líka rétt, sem hæstv. ráðherra nefnir, að æskilegra hefði verið að fá svokallaðar lánalínur frekar en eiginleg lán, eins og framsóknarmenn bentu á á sínum tíma. Ekki var hins vegar leitast eftir slíku fyrr en það var orðið of seint, að minnsta kosti að mati hæstv. ráðherra eins og kom fram hér áðan.

En betra er seint en aldrei og ástæða til að fagna því ef hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ætla að beita sér fyrir lækkun vaxta af Norðurlandaláninu.