141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

vextir af lánum frá Norðurlöndum.

[13:50]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt að það komi fram að það var ekki biðröð eftir því að lána Íslandi peninga í lok árs 2008 og framan af ári 2009, og samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var svona sett upp og þannig kom ég að henni að Norðurlöndin hefðu — (Gripið fram í.) Já, það fór nú eins og það fór með rússneska lánið, hv. þingmaður, sem og stóra lánið sem einhver ætlaði að sækja til Noregs. Það var ekki biðröð eftir því að lána til Íslands, það var ekki þannig, og óvissan var mikil.

Það er vísu líka rétt að taka það fram að tvær þjóðir sýndu Íslandi einstakt veglyndi við þessar aðstæður. Það voru Færeyjar, sem buðu fram sitt rausnarlega lán á góðum kjörum strax, og það var Pólland, sem bauðst til að taka þátt í fjármögnun samstarfsáætlunar með Alþjóðgjaldeyrissjóðnum og lagði sérstaka áherslu á að fram kæmi að pólska lánið væri veitt án skilyrða. Það voru vinalán.

Varðandi Norðurlöndin hef ég litlu við það að bæta sem ég sagði áðan. Ástæðan fyrir því að umræðan kemur fyrst og fremst upp núna er sú (Forseti hringir.) að alveg fram undir lok síðasta árs (Forseti hringir.) bundum við vonir við að geta breytt því sem eftir stóð af lántökuréttinum í línu og hefðum þá ekki þurft að draga á það og ekki borið af því kostnað. Þess vegna er umræðan um vaxtakjörin nú fyrst að koma upp.