141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

greiðslur til skiptastjórna.

[13:53]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi viti að skilanefndirnar eða slitastjórnirnar starfa alfarið á ábyrgð og á kostnað og í reikningi hjá kröfuhöfum. Þær eru núna dómskipaðar eftir að skilanefndir eru farnar og slitastjórnir í öllum tilvikum teknar við, skipaðar af dómstólunum til að undirstrika sjálfstæði þeirra og ríkið hefur ekki með þeirra mál að gera.

Það er tvennt sem kemur til greina að gera og hefur verið reynt í báðum tilvikum. Það er annars vegar — eftir að þær voru færðar formlega undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins, sem gerðist, ef ég man rétt, ekki fyrr en á síðasta ári — að Fjármálaeftirlitið geti hugsanlega beitt sér gagnvart þeim en Fjármálaeftirlitið túlkar það þannig að hlutverk þess sé fyrst og fremst að fara yfir það að slitastjórnirnar starfi í samræmi við lög og reglur og ástundi eðlilega viðskiptahætti.

Hitt er svo að ríkið eða aðrir innlendir kröfuhafar geta auðvitað reynt að beita sér á þeim vettvangi ef þeim þykja þóknanir sem slitastjórnirnar taka sér óeðlilega háar, og það hefur gerst, t.d. í tilviki lífeyrissjóða, eins og hv. þingmaður var hér óbeint að rifja upp. Ég hef rætt það við þá íslensku kröfuhafa og fyrst og fremst eignasafn Seðlabanka Íslands — hef reyndar gert það oftar en einu sinni á umliðnum tveimur til þremur árum — að ríkið reyni líka fyrir sitt leyti sem kröfuhafi að nota stöðu sína í þeim tilvikum til að tryggja að hér sé ekki með óhófi tekið kaup miðað við íslenska mælikvarða. Vandinn er sá að þeir tímataxtar sem þessir aðilar taka sér munu ekki þykja tiltakanlega háir eins og þekkt er meðal lögfræðinga eða sambærilegra aðila erlendis en þeir eru úr öllu samhengi við íslenskan veruleika og það er það sem ég hef sagt.

Staða málsins er þessi, (Forseti hringir.) hin formlega staða er þessi, og eigi að gæta sanngirni í umræðunni verður að horfast í augu (Forseti hringir.) við að það er ekki auðveld leið fyrir stjórnvöld að grípa inn í, öðruvísi en það yrði talið ólögmætt og óheimilt (Forseti hringir.) inngrip í starfsemi sjálfstæðra slitastjórna, dómskipaðra slitastjórna, sem eiga að gæta hagsmuna kröfuhafanna.