141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

greiðslur til skiptastjórna.

[13:57]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fór yfir það hvaða tveir farvegir einir væru tiltækir hjá stjórnvöldum til að reyna að hafa áhrif á þessi mál. Það er annars vegar að beita stöðunni sem kröfuhafi og það hefur verið gert. Rætt hefur verið við þá aðila sem fara með kröfurnar fyrir hönd innlendra aðila, og sömuleiðis hefur ítrekað verið rætt við Fjármálaeftirlitið um það hvað það gæti gert í þessum efnum og ég fór yfir það hvernig Fjármálaeftirlitið lítur á sinn hlut. Varað hefur verið við því að ríkið reyndi með einhverjum öðrum hætti en þessum tveimur lögformlegu leiðum að beita sér vegna þess að það gæti verið túlkað sem ólögmætt inngrip af hálfu stjórnvalda og tilraun til að hafa áhrif á uppgjör búanna þannig að hagsmuna kröfuhafanna væri ekki gætt. Hv. þingmaður þekkir kröfuréttinn og veit hvernig um þetta er búið. Það er ekki vegna þess að menn hafi ánægju af því að sjá hversu algjörlega úr takti við íslenskan veruleika þóknanir hafa verið þarna, og ég tala nú ekki um ef menn eru (Forseti hringir.) að semja við sjálfa sig eða annað því um líkt sem hv. þingmaður hér nefndi. Menn verða þá að hafa eitthvað fyrir sér í þeim efnum áður en þeir bera slíkt á borð sem rök í málinu.