141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

breytingar á byggingarreglugerð.

[14:03]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Það sem ég hef fyrst og fremst áhyggjur af er ekki það að iðnaðurinn geti ekki aðlagað sig þessum breytingum eða að byggingarmenn okkar geti ekki útfært byggingar með þeim hætti sem reglugerðin mælir fyrir um, heldur áhrif breytinganna á íbúðaverð. Ég held að ekki sé ofmælt að þær ítarlegu breytingar sem farið er fram á eru metnaðarfullar og markvissar, eins og ég nefndi áðan, og full ástæða til að við tökum þær inn. En við verðum líka að horfa á aðstæður á markaði. Íbúðaverð hefur vaxið um 17% á skömmum tíma. Leiguverð hefur aldrei verið hærra og byrðir eru þyngri fyrir leigjendur eins og staðan er í dag. Ég tel mjög mikilvægt að ráðuneytið skoði af alvöru hvort ekki sé rétt að teygja á þessum aðlögunartíma, taka inn ákvæði í ákveðnum áföngum, gefa meira svigrúm og tryggja með öllum hætti að við náum þessum markmiðum fram en gerum það þannig að það aðlagist þeirri stöðu sem er á markaðnum og fari ekki út í verðlagið og hafi í för með sér aukinn kostnað (Forseti hringir.) fyrir húsnæðiseigendur og leigjendur.